Neita að skila Chagos-eyjum

Pravind Kumar Jugnauth, forsætisráðherra Máritíus. Stjórnvöld á eyjunum vilja að …
Pravind Kumar Jugnauth, forsætisráðherra Máritíus. Stjórnvöld á eyjunum vilja að Bretlar skili þeim aftur Chagos-eyjaklasanum hið fyrsta. AFP

Stjórnvöld á eyjunni Máritíus saka Breta um að vera ólöglega nýlenduherra, eftir að bresk stjórnvöld hunsuðu sex mánaða frest sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu veitt þeim til að skila Máritíus Chagos-eyjaklasanum. BBC greinir frá.

Bresk stjórnvöld segjast ekki viðurkenna kröfu Máritíus um eign eyjaklasans, en Bretar keyptu Chagos árið 1965 fyrir þrjár milljónir punda.

Stjórnvöld á Máritíus segjast hins vegar hafa neyðst til að láta eyjarnar af hendi í skiptum fyrir fullveldið sem þau öðluðust árið 1968.

Breska utanríkis- og samveldisráðuneytið segir Breta hins vegar hafa fullan rétt til eyjanna, en ein þeirra, Diego Garcia, hýsir bandaríska herstöð.

„Bretland efast ekki um eignarétt sinn á þessu bresk-indverska svæði sem hefur verið undir samfelldri stjórn Breta frá því árið 1814,“ sagði í yfirlýsingunni.

Það var í maí á þessu ári sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktaði með miklum meirihluta atkvæða að Chagos-eyjum yrði skilað aftur til Máritíus. Tillagan naut stuðnings 116 ríkja, en einungis sex voru á móti.

Sögðu Sameinuðu þjóðirnar við þetta tilefni að afnýlenduvæðing Máritíus hafi ekki verið framkvæmd í anda réttar þjóða til sjálfsákvörðunar og þess vegna teldist stjórn Breta yfir Chagos óréttmæt.

Þremur mánuðum áður höfðu Sameinuðu þjóðirnar ráðlagt Bretum að skila eyjunum hið fyrsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert