Grunaður um víðtækar pyntingar og morð

Beatriz Cantarini de Abriata, móðir Hernan Abriata, sem var handtekinn …
Beatriz Cantarini de Abriata, móðir Hernan Abriata, sem var handtekinn árið 1976 og hefur ekkert spurst til hans síðan. AFP

Frönsk yfirvöld munu síðar í dag framselja argentínskan lögregluforingja, Mario Sandoval, til heimalandsins en hann er ákærður fyrir að hafa pyntað námsmann til bana. Sandoval er grunaður um að hafa tekið þátt í pyntingum og morðum á um 500 manns á sínum tíma.

Sandoval, sem er 66 ára gamall, var handtekinn á miðvikudag á heimili sínu skammt fyrir utan París en hann hefur búið í Frakklandi frá árinu 1985 og er með franskan ríkisborgararétt. Hann var handtekinn eftir að frönsk yfirvöld tóku ákvörðun um að framselja hann til Argentínu eftir átta ára lagadeilur. 

Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að Sandoval verði sendur til Buenos Aires í kvöld með flugvél Air France. Sandoval er eftirlýstur fyrir að hafa rænt Hernan Abriata, nema í arkitektúr, í október 1976 en lík hans hefur aldrei fundist. Hann er jafnframt sakaður um að hafa átt aðild að fjölmörgum fleiri mannshvörfum á tímum herforingjastjórnarinnar. Að sögn yfirvalda í Argentínu eru fyrirliggjandi vitnisburðir fjölda fólks sem tengja Sandoval við morðið á Abriata.

Lögmenn Sandoval segja aftur á móti að ekki sé möguleiki á að hann fái réttlát réttarhöld þar og eigi á hættu að verða pyntaður í haldi og eða búa við ömurlegar aðstæður í varðhaldi í Argentínu. Reyndu þeir að fá málið tekið upp fyrir Mannréttindadómstól Evrópu án árangurs.

Abriata var haldið í hinum illræmda ESMA herskóla í Buenos Aires þar sem um fimm þúsund manns var haldið og pyntaðir eftir valdarán hersins árið 1976. Mörgum þeirra var varpað úr flugvélum í sjóinn eða í ána Plata.

Sandoval flúði frá Argentínu eftir að herforingjastjórnin missti völdin. Hann var prófessor við Sorbonne háskóla í París í deild rómönsku Ameríku.

Þrátt fyrir að vera með franskan ríkisborgararétt má framselja hann þar sem glæpirnir sem hann er sakaður um voru framdir áður en hann fékk franskan ríkisborgararétt. 

Yfirvöld í Argentínu telja að Sandoval hafi tekið þátt í meira ein 500 mannránum, pyntingum og morðum á árunum1976-83.

Ömmur Plaza de Mayo hafa leitað uppi börn fólks sem var drepið eða hvarf á tím­um her­for­ingja­stjórn­ar­inn­ar í Arg­entínu 1976 til 1983. Sam­tök­in aðstoða börn­in við að finna blóðfjöl­skyld­ur sín­ar. Talið er að 30 þúsund manns hafi horfið á meðan her­stjórn­in var við völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert