Greindist með veiruna fyrir fund með Trump

Mike DeWine, ríkisstjóri Ohio, er með COVID-19. Mynd úr safni.
Mike DeWine, ríkisstjóri Ohio, er með COVID-19. Mynd úr safni. AFP

Mike Dewine, ríkisstjóri Ohio í Bandaríkjunum, greindist með COVID-19 í dag skömmu áður en hann átti að taka á móti Donald Trump Bandaríkjaforseta sem var í opinberri heimsókn í Cleveland í Ohio.

DeWine segist ekki vera með nein einkenni sjúkdómsins en fór í sýnatöku fyrir fundinn með Trump líkt og allir þurfa að gera áður en þeir hitta forsetann. Trump var í Cleveland til að ræða efnahagslega velsæld og að heimsækja verksmiðju raftækjaframleiðandans Whirlpool. Politico og fleiri fjölmiðlar greina frá þessu.

Annar ríkisstjórinn sem greinist sýktur

Búið er að aflétta lokunum og hluta af takmörkunum sem settar voru á vegna kórónuveirufaraldursins í Ohio en grímuskylda er enn í gildi og hefur verið síðan 23. júlí. Fleiri en 96 þúsund staðfest smit hafa greinst í ríkinu og dauðsföll vegna COVID-19 eru orðin fleiri en 3.500 talsins samkvæmt gögnum frá Johns Hopkins háskóla.

DeWine er annar ríkisstjórinn í Bandaríkjunum sem hefur sýkst af kórónuveirunni svo vitað sé. Í síðasta mánuði var greint frá því að Kevin Stitt, ríkisstjóri Oklahoma, hefði greinst jákvæður fyrir veirunni skömmu eftir að hafa verið viðstaddur fjöldafund Trump í Tulsa án þess að bera andlitsgrímu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert