Trump fær að halda kosningafund í Tulsa

Frá kosningafundi Donalds Trump í febrúar. Á morgun heldur forsetinn …
Frá kosningafundi Donalds Trump í febrúar. Á morgun heldur forsetinn sinn fyrsta fjöldafund frá því í mars. AFP

Hæstiréttur Oklahoma-ríkis í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að Donald Trump, forseti landsins, fái að halda konsingafund í borginni Tulsa á morgun, laugardag. Fundurinn verður fyrsti kosningafundur hans frá því í mars. BBC greinir frá.

Hópur fólks hafði höfðað málsókn á hendur kosningateymi forsetans til að koma í veg fyrir að fundurinn yrði haldinn, á þeim forsendum að hann gæti orðið til þess að auka útbreiðslu kórónuveirunnar í borginni, sem er sú næst fjölmennasta í Oklahoma-ríki.

Héldu málshefjendur því fram að forsetanum og leikvanginum þar sem fundurinn fer fram bæri að virða opinber tilmæli bandarískra heilbrigðisstofnana. Hæstiréttur ríkisins komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að úr því að ríkið hefði byrjað að slaka á samkomutakmörkunum þá væru opinber tilmæli um slíkt í höndum eigenda fyrirtækja.

Ekki eru allir jafnsáttir við komu forsetans. Mótmælendur tröðkuðu á …
Ekki eru allir jafnsáttir við komu forsetans. Mótmælendur tröðkuðu á einkennishatti hans í Tulsa í dag, en þar fóru fram fjölmenn mótmæli hreyfingarinnar Black Lives Matter til minningar um þrælafrídaginn 19. júní. Þann dag árið 1865 var síðustu þrælunum í Bandaríkjunum gefið frelsi. AFP

Nýjum tilfellum kórónuveirunnar hefur fjölgað síðustu daga og hafa heilbrigðisyfirvöld lýst yfir áhyggjum af fyrirhugaðri samkomu. Kosningateymi forsetans hefur haldið því fram að um ein milljón manna hafi sett sig í samband við sig til að óska eftir miðum á fundinn, en hann verður haldinn á íþróttaleikvanginum í borginni, Bank of Oklahoma Center. Röð tók að myndast fyrir utan leikvanginn fyrr í vikunni, en um 19.000 manns komast að.

Kosningateymi forsetans hefur gefið út að hitastig allra, sem mæta á viðburðinn, verði mælt og fólki boðið upp á handspritt og grímur. Fólki verði þó ekki skylt að bera grímur, en forsetinn hefur sjálfur sett sig upp á móti reglum um slíkt og sagt að grímunotkun verði alltaf að vera val hvers og eins.

Þá þurfa þeir sem kaupa miða á viðburðinn að samþykkja skilmála þar sem þeir staðfesta að þeir séu meðvitaðir um áhættuna af því að geta fengið kórónuveiruna á fundinum og að kosningateymi forsetans sé ekki á nokkurn hátt ábyrgt fyrir neinum „veikindum eða slysum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert