Sagðist hafa þaggað niður neikvæða umfjöllun

Donald Trump í New York fyrr í vikunni eftir að …
Donald Trump í New York fyrr í vikunni eftir að hafa verið í dómsal. AFP/Michael M. Santiago

Útgefandi bandaríska götublaðsins National Enquier sagðist fyrir rétti í gær hafa gert leynilegt samkomulag við Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og lögmann hans Michael Cohen um að þagga niður neikvæða umfjöllun í kringum forsetaframboð hans árið 2016.

Saksóknarar spurðu David Pecker út í málið í næstum þrjár klukkustundir í dómsalnum, að sögn BBC. 

„Þetta gæti orðið mjög stór frétt, þannig að ég tel að það ætti að koma henni af markaðnum,” en sagðist Pecker hafa ráðlagt forsetanum fyrrverandi um að þagga niður ákveðna umfjöllun. 

Vitnisburðurinn gæti skipt sköpum fyrir saksóknara, sem reyna að sanna að Trump hafi reynt að stöðva frétt um meint framhjáhald til að hún hefði ekki áhrif á kosningabaráttu hans.

Saksóknarar segja að hann hafi reynt að hylma yfir greiðslu upp á 130 þúsund dollara, eða tæpar 19 milljónir króna, til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels áður hann vann kapphlaupið um að komast í Hvíta húsið árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert