Hefnd talin búa að baki

Lögregla í Grønland-hverfinu í Ósló.
Lögregla í Grønland-hverfinu í Ósló. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögreglan í Ósló telur hefnd búa að baki vígi manns á þrítugsaldri er skotinn var til bana í Grønland-hverfinu snemma í gærmorgun en maður á fertugsaldri, sem lögregla kannast við frá fyrri málum, var handtekinn vegna málsins í gærkvöldi. Áður hafði annar, á þrítugsaldri, verið handtekinn og er sá grunaður um hlutdeild.

Verjandi þess sem handtekinn var í gærkvöldi segir of snemmt að greina frá afstöðu skjólstæðingsins til málsins en verjandi hins kveður af og frá að hans maður hafi haft nokkuð með málið að gera.

Á blaðamannafundi lögreglunnar í Ósló síðdegis í gær kom fram að lögregla teldi allar líkur á að árásin hefði tengst uppgjöri gengja í borginni en sá myrti var Norðmaður á þrítugsaldri sem ítrekað hafði komið við sögu lögreglu og hlotið fjölda dóma.

Með ágætar lýsingar á mönnum

Sem fyrr segir er ein kenninga lögreglunnar um málið að þar hafi einhver eða einhverjir átt eitthvað óuppgert við fórnarlambið og verið að koma fram hefndum. Þetta segir Ingebjørg Hansen, deildarstjóri manndrápsdeildar Óslóarlögreglunnar.

„Við höfum nokkrar kenningar og vinnum nú að því að komast að því hvað hér bjó að baki,“ segir Hansen við norska ríkisútvarpið NRK og útilokar lögregla ekki að fleiri verði handteknir í málinu. Frá því greinir Jan Eirik Thomassen rannsóknarlögreglumaður og vísar í upptökur öryggismyndavéla sem gefi til kynna að fleiri eigi aðild að árásinni.

„Við erum með ágætar lýsingar á mönnum og höfum ákveðna kandídata í huga sem við erum að vinna með núna. Við teljum ekki að þarna sé um tilviljunarkennda árás að ræða, miðað við þær upplýsingar sem við höfum er engin ástæða til að ætla að almenningur þurfi nokkuð að óttast þarna í nágrenninu,“ segir Line Skott lögregluvarðstjóri við NRK.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert