Banna ChatGPT af persónuverndarástæðum

Ítalía hefur tímabundið lagt bann við ChatGPT vegna áhyggna um …
Ítalía hefur tímabundið lagt bann við ChatGPT vegna áhyggna um persónuupplýsingar landsmanna. AFP

Mállíkanið ChatGPT verður tímabundið bannað á Ítalíu þar sem áhyggjur af upplýsingaöflun og persónuvernd liggja í loftinu.

Yfirvöld á Ítalíu hafa lýst því yfir að OpenAI, fyrirtækið sem stendur að baki mállíkansins umdeilda, hafi engan lagalegan grundvöll sem réttlætir „fjöldaöflun og geymslu á persónuupplýsingum í þeim tilgangi að „mennta“ algóritmann sem er grundvöllurinn fyrir líkaninu“.

ChatGPT hefur vakið mikla athygli víða um heim, einkum hér á landi, þar sem tilkynnt var fyrr í mánuðinum að líkanið skyldi læra Íslensku sem annað tungumál.

Margir gagnrýnendur hafa vakið athygli á á því að óljóst sé hvaðan ChatGPT og samkeppnisaðilar þess fengu gögn sín eða hvernig þeir unnu úr þeim.

Háskólar og menntayfirvöld víða um heim og hafa lagt bönn við mállíkaninu vegna áhyggna af að nemendur noti það til að skrifa ritgerðir eða svindla á prófum.

Óviðeigandi svör

Ítölsk yfirvöld hafa sett „tímabundna takmörkun á vinnslu ítalskra notendaupplýsinga“ af hálfu OpenAI og segjast hafa sett af stað rannsókn.

Jafnframt skorti lagagrundvöll fyrir gagnaöflun, en yfirvöld bentu á skort á gagnsæi um það hverra gagna væri aflað.

Einnig halda ítölsk yfirvöld því fram að röng svör sem spjallmennið gefi bendi til þess að ekki sé rétt farið með gögn og sakaði fyrirtækið um að sýna börnum „gjörsamlega óviðeigandi svör“.

Enn fremur var vísað til gagnabrots 20. mars þar sem samtölum notenda og greiðsluupplýsingum var stefnt í hættu. Fyrirtækið kenndi villu um.

Skortir gagnsæi í gangaöflun

Nello Cristianini, sérfræðingur í gervigreind frá háskólanum í Bath í Bretlandi, sagði að auðvelt væri að tryggja gögn um notendur og framfylgja aldurstakmörkum.

Hann segir þó að hinar ásakanirnar séu vandasamar, þ.e. annars vegar að fyrirmyndin sé þjálfuð með persónuupplýsingum sem er safnað án samþykkis og hins vegar að upplýsingarnar séu ekki meðhöndlaðar á réttan hátt. „Það er óljóst hvernig hægt er að laga þetta von bráðar,“ segir Cristiani.

OpenAI hefur gert samning við Microsoft sem notar tæknina í leitarvél sinni Bing og öðrum forritum.

Sigurganga ChatGPT hefur vakið ákveðið gullæði meðal annarra tæknifyrirtækja og fjárfesta. Hver tilkynningin hefur komið á fætur annarri frá fyrirtækjum sem vilja dýfa tánni í haf gervigreindarinnar. Ýmis fyrirtæki á borð við Google og Adobe hafa gefið út tilkynningar um sín gervigreindaráform á seinustu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert