Bandaríkin fordæma forsetakosningar í Rússlandi

Vla­dimír Pútín ávarpaði rússnesku þjóðina fyrr í dag. Fólk var …
Vla­dimír Pútín ávarpaði rússnesku þjóðina fyrr í dag. Fólk var komið saman í Moskvu til að fagna því að tíu ár eru liðin frá innlimun Rússlands á Krímskaga. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa fordæmt forsetakosningarnar í Rússlandi og skilgreina þær sem ólýðræðislegar.

Þá munu Bandaríkin ekki óska Vladimír Pútín forseta til hamingju með kjörið, en hann var lýstur sigurvegari með miklum mun.

Samkvæmt opinberum tölum hlaut Pútín 87 prósent atkvæða. Sig­ur­inn er sá stærsti til þessa í land­inu.

Engin hamingjusímtöl munu berast frá Bandaríkjunum

Vedant Patel, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði ferlið hafa verið ótrúlega ólýðræðislegt. Spurður um endurkjör Pútíns svaraði Patel kaldhæðnislega:

„Ég var á sætisbrúninni. Þetta var svo spennandi.“

Patel sagði einnig að það væri óhætt að segja að það muni örugglega ekki berast hamingjusímtöl frá Bandaríkjunum, spurður hvort Bandaríkin myndu ekki viðurkenna niðurstöður kosninganna.

„Það er líklegt að hann verði áfram forseti Rússlands, en það afsakar ekki einræðisstjórn hans,“ sagði Patel.

Segir Rússa verðskulda frjálsar kosningar

Patel sakaði Pútín um að hafa fangelsað og drepið andstæðinga sína. Al­ex­ei Navalní, rúss­nesk­ur stjórn­ar­and­stæðing­ur­, lést um miðjan febrúar í fanga­ný­lendu fyr­ir norðan heim­skauts­baug.

Patel sakaði Pútín um að fangelsa andstæðinga sína fyrir kosningarnar og koma í veg fyrir framboð þeirra. Þá sakaði hann forsetann einnig um að bera ábyrgð á dauða Navalnís.

Rússar „verðskulda frjálsar og sanngjarnar kosningar og getu til að velja úr hópi frambjóðenda sem tákna fjölbreyttar skoðanir“, sagði Patel.

Rússar verðskulduðu „einnig aðgang að hlutlausum upplýsingum til að hjálpa þeim að velja þá forystu sem þeir þrá og hjálpa þeim að ákveða framtíð lands síns“.

„Það var greinilega ekki raunin í þessum kosningum sem voru hvorki frjálsar né sanngjarnar,“ bætti hann við.

Bandaríkin hafa haft lítil samskipti við Pútín síðan hann fyrirskipaði innrás í Úkraínu í febrúar 2022.

Viðbrögð Bandaríkjanna koma eftir svipaða gagnrýni evrópskra bandamanna, sem efast einnig um framkvæmd og niðurstöður kosninganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert