Keyrði um á milli húsa og myrti fólk

Lögregla að störfum í dag í Rockford í Illinois í …
Lögregla að störfum í dag í Rockford í Illinois í Bandaríkjunum. AFP

Fjórir voru myrtir og sjö særðir í stunguárás í Rockford í Illinois-ríki gær sem tók um 20 mínútur. Á meðal þeirra látnu er táningsstelpa.

22 ára gamall karlmaður var handtekinn eftir árásina. Heitir hann Christian Soto. Ekki er vitað hvað honum gekk til en hann tjáði lögreglu að hann hefði verið að reykja marijúana og kveðst að sögn telja að einhver sterkari eiturlyf hafi verið falin í efninu.

Héraðssaksóknarinn J. Henley sagði á blaðamannafundi í dag að Soto hefði verið með fulla meðvitund á meðan árásunum stóð og að hann hefði munað vel eftir smáatriðum. Saksóknarinn gat ekki svarað því hvað olli þessu bræðiskasti hjá Soto. 

Soto er ákærður fyrir fjögur morð og sjö morðtilraunir, auk tveggja innrása á heimili með hættulegu vopni, sagði Hanley, og stefnt er að því að hann verði leiddur fyrir dómstóla síðdegis í dag vestanhafs.

Héraðssaksóknarinn J. Heney á blaðamannafundinum í dag.
Héraðssaksóknarinn J. Heney á blaðamannafundinum í dag. AFP

Myrti æskuvin og móður hans

Árásirnar hófust um klukkan 13.14 að staðartíma inni á heimili æskuvinar Soto. Þar reyktu þeir og í kjölfarið hóf Soto að stinga vin sinn og móður hans. Mæðginin létust bæði af sárum sínum.

Soto fór svo upp í bílinn sinn og keyrði af stað. Þá sá hann póstburðarmann fyrir utan eitt hús, stöðvaði bílinn og stakk hann. Soto fór svo aftur upp í bifreiðina og keyrði yfir póstburðarmanninn sem lá á jörðinni.

Þá keyrði hann aðeins áfram og stöðvaði bifreiðina, braust inn í nærliggjandi heimili og stakk þar konu og tvö börn hennar. Þau lifðu öll af árásina.

Ekki er vitað hvað manninum gekk til.
Ekki er vitað hvað manninum gekk til. AFP

Barði konu til bana með hafnaboltakylfu

Soto fór svo á annað heimili í nágrenninu, þar sem hann barði konu, Jennu Newcomb, til bana með hafnaboltakylfu og barði tvær aðrar konur á heimilinu sem lifðu árásina af.

Eftir þessa árás réðst hann inn á annað heimili þar sem hann stakk konu, sem lifði árásina af eftir að nágranni kom henni til bjargar, sem einnig var stunginn líka.

Lögreglan náði manninum klukkan 13.35, eða um 20 mínútum eftir að árásirnar hófust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert