450 þúsund flúið Rafah

Fjölskyldur flýja hvert sem þær geta í leit að öryggi.
Fjölskyldur flýja hvert sem þær geta í leit að öryggi. AFP

Um 450 þúsund manns hafa flúið borgina Rafah í Palestínu, að sögn flóttamannahjálpar Sameinuðu Þjóðanna í Palestínu, síðan ísraelsk stjórnvöld biðluðu til íbúa um að rýma borgina þann 6. maí.

Samtímis hafa 100 þúsund manns þurft að flýja heimilið sitt í norðurhluta Gasa sem þýðir að næstum fjórðungur íbúa Gasa, sem eru í heild um 2,4 milljónir, hefur hrakist á vergang aftur á rúmri viku.

Hvergi skjól

Evrópusambandið hefur varað ísraelsk stjórnvöld við afleiðingum áframhaldandi árásar á borg þar sem 1,4 milljónir manns höfðu leitað sér skjóls. 

„Fólk finnur fyrir stanslausri þreytu, hungri og hræðslu. Hvergi er öruggt. Tafarlaust vopnahlé er þeirra eina von,“ kemur fram í yfirlýsingu flóttamannahjálpar Sameinuðu Þjóðanna í Palestínu.

Ísraelsk stjórnvöld hafa beðið fólk um að leita sér skjóls á mannúðarsvæðinu, Al-Mawasi, við norðvesturströnd Rafah en hjálparsamtök hafa varað við því að svæðið sé ekki tilbúið fyrir mikinn straum fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka