Geert Wilders tókst að mynda hægristjórn

Geert Wilders hefur tekist að koma flokki sínum í ríkisstjórn.
Geert Wilders hefur tekist að koma flokki sínum í ríkisstjórn. AFP/Robin Van Lonkhuijsen

Sex mánuðum eftir mikinn sigur Frelsisflokks (PVV) Geert Wilders í hollensku þingkosningunum hefur PVV tekist að mynda stjórnarmeirihluta ásamt þremur öðrum flokkum. Geert Wilders verður þó ekki forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar.

Í morgun var kynntur 26 blaðsíðna stjórnarsáttmáli sem kveður meðal annars á um ströngustu hælisleitendalöggjöf í sögu Hollands.

Verður hælisleitendum með tilhæfulausar dvalarleyfisbeiðnir til dæmis vísað úr landi með valdi ef þörf krefur. Flokkarnir segjast ætla senda beiðni til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þess efnis að fá undanþágu frá stefnu Evrópusambandsins í málefnum flóttafólks.

Vilja færa sendiráðið í Jerúsalem

Flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina eru PVV, Bændaflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn (VVD) og NSC. Eru þetta flokkar frá miðju til hægri.

Í utanríkismálum hyggst ríkisstjórnin styðja Úkraínu með vopnasendingum, fjárstuðningi, pólitískum stuðningi og siðferðislegum stuðningi.

Þá er einnig sagt að ríkisstjórnin muni skoða fýsileika þess að færa sendiráð landsins í Ísrael yfir í Jerúsalem. Það gæti reynst umdeilt þar sem bæði Ísrael og Palestínumenn gera tilkall til Jerúsalem, en borgin er höfuðborg Ísraels og Bandaríkin eru sem dæmi með sendiráð sitt í Ísrael í borginni.

Skipa ráðherra utan þings

Enn er ekki búið að kynna hver verður forsætisráðherra Hollands en þó hefur vakið athygli að helmingur ráðherranna verður skipaður utan þings.

Ný ríkisstjórn er mikill sigur fyrir Geert Wilders sem hefur í um áraraðir verið talinn af sumum vera á jaðri stjórnmálanna. Í síðustu þingkosningum naut hans flokkur hins vegar langmests stuðnings og hlaut 37 þingsæti af 150. 

Frá vinstri: Geert Wilders, formaður PVV, Dilan Yesilgoz, formaður VVD, …
Frá vinstri: Geert Wilders, formaður PVV, Dilan Yesilgoz, formaður VVD, Caroline van der Plas, formaður Bændaflokksins, og Pieter Omtzigt, formaður NSC. AFP/Koen Van Weel
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert