Telur að Rússar herði sókn sína í norðaustri

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti í viðtali við AFP í Kænugarði í …
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti í viðtali við AFP í Kænugarði í gær. AFP/Roman Pilipey

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti telur að Rússar eigi eftir að herða sókn sína í norðausturhluta Úkraínu. Hann segir einnig að Úkraínumenn hafi aðeins fjórðung af þeim loftvörnum sem herinn þurfi til að vera á pari við innrásarlið Rússa.

Þetta kemur fram í viðtali Selenskís við AFP-fréttaveituna.

Rússneskar hersveitir hófu óvænta árás á Karkív-hérað 10. maí sem hefur skilað þeim mestu landvinningum í Úkraínu í eitt og hálft ár.

Verðum að halda einbeitingu

 „Ég segi ekki að þetta hafi verið mikill árangur [fyrir Rússa] en við verðum að halda einbeitingu og vera undirbúin fyrir það að þeir séu að færa sig lengra inn á landsvæði okkar,“ segir hann.

Rúss­nesk­ar her­sveit­ir í Úkraínu hafa sölsað und­ir sig 278 fer­kíló­metra landsvæði síðan þær settu auk­inn kraft í hernað sinn í norðaust­ur­hluta Karkív-héraðs og í suður­hluta lands­ins, sam­kvæmt út­reikn­ing­um AFP út frá gögn­um frá stofn­un sem rann­sak­ar hernað, Institu­te for the Stu­dy of War (ISW).

Selenskí í viðtali við AFP í gær.
Selenskí í viðtali við AFP í gær. AFP/Roman Pilipey

Úkraína þurfi 120-130 F-16 orrustuþotur

Selenskí ítrekaði beiðni til bandamanna um að senda fleiri loftvarnarkerfi og orrustuþotur til að berjast gegn yfirburðum Rússlands í lofti.

 „Í dag höfum við um 25 prósent af því sem við þurfum til að verja Úkraínu. Ég er að tala um loftvarnir,“ sagði hann.

Úkraína þurfi 120-130 F-16 orrustuþotur eða aðrar háþróaðar flugvélar til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert