Konungur Sádi-Arabíu með „háan hita“

Salman konungur í apríl á þessu ári. Hann er 88 …
Salman konungur í apríl á þessu ári. Hann er 88 ára gamall. AFP

Salman konungur Sádi-Arabíu er með „háan hita“ og verki í liðum og mun því gangast undir rannsóknir, í annað sinn á innan við mánuði. 

Í tilkynningu yfirvalda sagði að rannsóknirnar myndu fara fram á heilsugæslustöð í konungshöllinni í borginni Jeddah. 

„Læknateymið ákvað að framkvæma nokkrar rannsóknir til þess að ganga úr skugga um heilsu hans,“ sagði í tilkynningunni. 

Salman konungur er 88 ára gamall og hefur verið við völd frá árinu 2015. Sonur hans, Mohammed bin Salman, sem er 38 ára gamall var gerður að krónprins árið 2017 og gegnir hann daglegum skyldum föður síns. 

Heilsa konungsins er sjaldan rædd en í apríl greindi konungshöllin frá því að Salman hefði verið fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Hann yfirgaf sjúkrahúsið síðar sama dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert