Öflug skjálftahrina nálægt Napólí

Frá Napólí.
Frá Napólí. AFP

Jarðskjálftahrina reið yfir Campi-Flegrei-svæðið vestur af Napólí á Ítalíu í gærkvöld og mældist stærsti skjálftinn 4,4 stig. Ekki hefur mælst öflugri skjálftahrina á þessu svæði í 40 ár.

Það fannst vel fyrir stærsta jarðskjálftanum í Napóli og talsverður ótti greip um sig á meðal fólks sem þusti út á götur en að sögn yfirvalda olli hann ekki meiriháttar skemmdum.

Skömmu áður mældist jarðskjálfti af stærðinni 3,5 og í kjölfarið fylgdu fleiri minni skjálftar. Á annað hundrað skjálftar mældust við Campi Flegrei-svæðið en þar er feiknastórt eldfjall þótt það sé flatt frekar en keilulaga.

Campi Flegrei-eldfjallið er staðsett á milli Napólí og bæjarins Pozzuoli en þar verður ekkert skólahald í dag.

Hálf milljón manna býr á Campi Flegrei-svæðinu en síðast gaus þar árið 1538.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert