Fimm Bandaríkjamenn meðal þeirra sem fórust í lestarbruna

Slökkviliðsmenn við lestarvagninn sem eldur kviknaði í.
Slökkviliðsmenn við lestarvagninn sem eldur kviknaði í. AP

Tólf létu lífið, 6 karlar, 5 konur og eitt barn, þegar eldur kom upp í farþegalest í Frakklandi í nótt. Að minnsta kosti fimm voru bandarískir ferðamenn. Fjórir voru Þjóðverjar en ekki er vitað um þjóðerni hinna. Þá slösuðust átta en enginn alvarlega. Eldurinn kom upp í svefnvagni þegar lestin, sem var á leið frá París til München, fór gegn um frönsku borgina Nancy. Lestin fór frá París þremur tímum áður.

Starfsmenn járnbrautarstöðvarinnar í Nancy sáu reyk leggja út úr einum svefnvagni lestarinnar þegar hún fór fram hjá. Þeir gerðu strax aðvart og rufu rafmagn til lestarinnar. Líklegt er talið að þeir sem létust hafi fengið reykeitrun og kafnað en björgunarmenn segja að ekki hafi verið hægt að bjarga fólkinu þótt tekist hafi fljótt að slökkva eldinn.

Lögregla í Nancy segir að svo virðist sem eldurinn hafi komið upp í stjórnborði svefnvagnsins en lestin er í eigu þýsku ríkisjárnbrautanna. Tveir svefnvagnar lestarinnar eyðilögðust í eldinum.

Lestin var á leið til Strassborgar í Frakklandi og síðan til München með viðkomu í Vín. Um 170 farþegar voru í lestinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert