Vikið úr skóla fyrir að klæðast stuttermabol með áletrun gegn Bush

Myndinni af Bush fylgir áletrunin „alþjóðlegur hryðjuverkamaður“. Bretton Barber sést …
Myndinni af Bush fylgir áletrunin „alþjóðlegur hryðjuverkamaður“. Bretton Barber sést hér fyrir utan framhaldsskólann í Dearborn. AP

Skólayfirvöld í Dearborn í Michigan í Bandaríkjunum fyrirskipuðu sextán ára pilti að fara annað hvort úr stuttermabol með áletruninni „alþjóðlegur hryðjuverkamaður“ og mynd af George W. Bush Bandaríkjaforseta eða að verða vikið úr skóla. Í frétt CNN segir að skólayfirvöld hafi óttast að bolurinn yrði til að kveikja bræði meðal nemenda skólans en meirihluti þeirra eru Bandaríkjamenn af arabískum uppruna.

Nemandinn, Bretton Barber, kaus að fara heim. Hann segist hafa verið í bolnum á mánudag til að tjá andstöðu sína við stríð og ennfremur hafi hann klæðst honum í tengslum við ritgerð sem hann skrifaði í náminu þar sem hann bar saman Bush og Saddam Hussein Íraksforseta.

Talsmaður skólans, Dave Mustonen, segir nemendur hafa tjáningarfrelsi en yfirvöld óttist að spenna magnist í ljósi deilunnar um Írak.

Um 300.000 manns búa í Dearborn. Um 55% nemenda skólans eru af arabískum uppruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert