Rán og gripdeildir í Írak

Nokkuð kveður að því að vopnaðir hópar fari um sveitir suðvesturhluta Íraks og víðar með ránum og gripdeildum. Kvarta margir undan því að stigamenn með alvæpni fari um og ræni dráttarvélum og flutningabílum, steli varningi úr verksmiðjum og hafi í hótunum við fólk. Breskir hermenn, sem nú hafa að mestu náð Basra, næststærstu borg Íraks, á sitt vald hafa einnig með höndum að leita uppi íraska hermenn, sem ganga lausir á þessu svæði, og afvopna íbúana.

"Þetta er að breytast í friðargæslu rétt eins og í Bosníu og Kosovo," sagði breskur hermaður. "Ég kom hingað til að heyja stríð."

Annar hermaður lýsti því hvernig hann aðstoðaði bónda úr þorpinu Mushirij, sem er um tíu kílómetra vestur af Basra, við að ná dráttarvél sinni. Elti hann dráttarvélarþjófinn uppi á 100 tonna skriðdreka.

"Bandaríkjamennirnir hernámu okkur, þeir sögðust mundu vernda okkur," sagði Íraki, sem ekki vildi láta nafns getið. "En þjófarnir koma og stela frá fyrirtækjum okkar. Hvernig getum við hafið störf í fyrirtækjum okkar?"

Óttast þjófa og breska hermenn

Maðurinn segir að ótti ríki bæði við þjófana og breska hermenn. "Ef þetta heldur áfram í sjö daga eða lengur munum við berjast við þá," sagði maðurinn og átti við bresku hermennina. "Við höfum ekki byssur, en við getum orðið okkur úti um byssur. Ef hér verður hvorki komið vatn né rafmagn munum við berjast við þá. Meira að segja þetta barn," sagði hann og klappaði átta ára dreng á kollinn.

Annar þorpsbúi sagði að fyrir innrásina hefði öryggi ekki verið vandamál. Þá hafi íraska lögreglan verið á staðnum. Nú sé engin lögregla.

Basra. Washington Post.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert