Nærri 400 Írakar drepnir í júní

Írösk kona grætur í stigagangi húss síns í námunda við …
Írösk kona grætur í stigagangi húss síns í námunda við Píslarvottatorg í Bagdad. Þar létu 4 lífið og 20 særðust í átökum uppreisnarmanna við íraska þjóðvarðliðið og Bandaríkjaher í gær. AP

Nærri 400 Írakar voru drepnir og margir særðust að auki í júní í Írak, í óeirðum sem áttu sér stað rétt áður en Írakar fengu fullveldi, að því er íraska heilbrigðisráðuneytið skýrði frá í dag. 388 Írakar dóu og um 1.680 særðust í árásum, hernaðaraðgerðum og vopnuðum átökum rétt áður en valdaframsal fór fram í landinu, 28. júní, að sögn ráðuneytisins.

Þrátt fyrir að ofbeldinu hafi heldur linnt frá því það átti sér stað, hafa 120 Írakar látist og 354 særst í átökum undanfarna 10 daga.

Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, undirritaði í gær ný þjóðaröryggislög í landinu. Þau veita honum heimild til þess að grípa til ýmissa aðgerða til að binda enda á árásir uppreisnarmanna. Meðal annars gera þau honum kleift að setja á herlög á svæðum þar sem uppreisnarástand ríkir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert