Snarpur jarðskjálfti í Kalíforníu

Bandaríska jarðfræðistofnunin segir að jarðskjálfti, sem mældist 5,9 stig á Richter, hafi orðið í miðri Kalíforníu nú síðdegis. Annar skjálfti, sem mældist 5 stig, kom þegar í kjölfarið. Ekki er vitað til þess að fólk hafi meiðst eða að tjón hafi orðið á mannvirkjum en skjálftarnir fundust víða í Kalíforníu og allt til San Francisco, í um 350 km fjarlægð.

Upptök skjálftans voru um 14 km suður af Parkfield og 27 km norð-austur af Paso Robles, þar sem tveir menn létust af völdum jarðskjálfta árið 2003.

Parkfield, sem er á San Andreas misgenginu, hefur stundum verið nefndur jarðskjálftahöfuðstaður Kalíforníu. Að minnsta kosti 31 eftirskjálfti mældist í kjölfar stóru skjálftanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert