Flokksskipti kanadísks þingmanns talin tryggja að stjórnin lifi af

Paul Martin.
Paul Martin. AP

Þingmaður kanadíska Íhaldsflokksins, sem er í stjórnarandstöðu, gekk í dag til liðs við Frjálslynda flokkinn, og er þetta talið tryggja að minnihlutastjórn Pauls Martins, formanns frjálslyndra, verði ekki felld í vantraustsatkvæðagreiðslu er fara á fram síðar í vikunni.

Þingmaðurinn, Belinda Stronach, bauð sig fram til formanns Íhaldsflokksins í fyrra, en laut í lægra haldi fyrir Stephen Harper. Martin hefur skipað hana ráðherra mannauðsmála.

„Þetta var erfið ákvörðun,“ sagði Stronach um tildrög þess að hún skipti um flokk. „Stjórnmálakreppan sem ríkt hefur í Kanada er of alvarlegt mál til þess að þar ráði flokkshagsmunirnir einir ferðinni.“

Hún sagði ennfremur, að Harper hefði ekki skilning á þörfum allra Kanadabúa, og tefldi þjóðareiningu í hættu með samstarfi við Bloc Québécois, flokk aðskilnaðarsinna á alríkisþinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert