Bush hrósar Afgönum og Karzai fyrir lýðræðisþróun í landinu

George W. Bush og Hamid Karzai kanna heiðursvörð við forsetahöllina …
George W. Bush og Hamid Karzai kanna heiðursvörð við forsetahöllina í Kabúl. AP

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hrósaði Afgönum fyrir þann árangur sem náðst hefði í lýðræðisþróun landsins eftir að talibanastjórnin var rekin frá völdum árið 2001. Sagði Bush á blaðamannafundi með Hamid Karzai, forseta Afganistans, í Kabúl í dag að Afganar væru öðrum þjóðum fyrirmynd og hvatning.

„Okkur þykir mikið til koma hvað land þitt, herra forseti, hefur náð miklum árangri og það er ekki hvað síst að þakka þinni forustu," sagði Bush á blaðamannafundinum. Bandaríkjaforseti kom í morgun í óvænta heimsókn til Afganistans en hann er á leið til Indlands og Pakistans.

„Fólk um allan heim fylgist grannt með því sem gerist hér," sagði Bush. „Ég vona að afganska þjóðin geri sér grein fyrir því að lýðræðið er að styrkjast. Þið eruð öðrum hvatning og sú hvatning mun leiða til þess að þeir krefjast frelsis og þegar veröldin verður frjálsari, þeim mun friðvænlegra verður í heiminum."

Bush sagði að það væri skemmtilegt að koma til lands, sem einbeitti sér að því að auka virðingu hvers og eins íbúa. Þá sagði hann að sendiráð Bandaríkjanna í Kabul, sem Bush mun opna formlega síðar í dag, væri til marks um að Bandaríkin væru skuldbundin til að aðstoða Afgana.

Karzai sagði að Afganistan stæði í þakkarskuld við Bandaríkin. Hann sagði að Bush væri mikill vinur og stuðningsmaður landsins og hann hefði hjálpað landinu áleiðis til frelsis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert