Óbeinar reykingar sagðar valda dauða nær 80.000 manna í aðildarlöndum ESB

Spænsk kona reykir á knæpu en á Spáni er vægt …
Spænsk kona reykir á knæpu en á Spáni er vægt reykingabann í gildi. Reuters

Ný skýrsla á vegum Evrópusambandsins dregur þá niðurstöðu af rannsóknum á óbeinum reykingum að allt að 79.500 manns deyi í aðildarlöndum ESB úr sjúkdómum eða veikindum sem rekja má til óbeinna reykinga.

Um 72.000 manns deyja árlega af völdum óbeinna reykinga á heimilum og um 7.000 á vinnustöðum. Skýrslan var unnin af vinnuhópinum Smoke Free Partnership sem fjöldi heilbrigðisstofnana í Evrópu á fulltrúa í.

Niðurstöður rannsókna benda til þess að sá reykur sem myndast við tóbaksbruna milli þess sem reykingamaður dregur að sér reyk eða blæs frá sér, sé skaðlegri en sá reykur sem fer í lungu reykingamannsins. Ástæða þess mun sú að sígarettan brennur við lægri hita í biðstöðu, þ.e. þegar reykingamaðurinn er með kveikt í en er ekki að reykja. Reykurinn við slíkan bruna inniheldur fleiri eiturefni.

Írar, Norðmenn, Ítalir, Möltubúar, Svíar og Skotar hafa bannað reykingar á almenningsstöðum og vinnustöðum og bendir margt til þess að Englendingar, Wales-búar, N-Írar og Belgar muni bætast í hópinn. Í skýrslunni er einnig bent á að kannanir sýni að reykingabanni sé almennt vel tekið af íbúum þeirra landa sem komið hafa á slíku banni og að ekkert bendi til þess að veitingahús verði fyrir tapi af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert