Norska stjórnin hækkar skatta; segir fjárlög miða að breyttu þjóðfélagi

Frá Ósló.
Frá Ósló. mbl.is/Golli

Ríkisstjórn Jens Stoltenbergs í Noregi lagði fram fyrsta fjárlagafrumvarp sitt í dag, og miðar það að breyttu þjóðfélagi og frekari þróun velferðarkerfisins. Kristin Halvorsen fjármálaráðherra sagði frumvarpið sýna að ríkisstjórnin væri í sóknarhug. Það myndi ennfremur sýna kjósendum „að við stöndum við gefin loforð“.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir miklum tekjuafgangi, þökk sé tekjum af olíuútflutningi, en Noregur er þriðja mesta olíuútflutningsríki heims. Engu að síður kveður frumvarpið á um allmargar skattahækkanir, alls upp á tvo milljarða norskra króna.

„Fyrri ríkisstjórn tók þann kostinn að lækka skatta,“ sagði Halvorsen. „Fyrir það máttum við gjalda með skorti á dagheimilum fyrir börn, færri kennurum í skólum og verri þjónustu við aldraða. Þessu viljum við breyta.“

Tekjuskattur hækkar á þá sem hafa yfir 650.000 krónur í árslaun, en persónuafsláttur hækkar hjá þeim sem tekjulægri eru. Þá hækkar einnig eignaskattur, sem er mjög umdeildur. Matarskattur hækkar úr 13 í 14%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert