Yfirmaður umhverfisstofnunar SÞ flaug í einkaþotu á umhverfisráðstefnu

Yfirmaður umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), Achim Steiner, flaug í einkaþotu er hann fór til umhverfisráðstefnu er haldin var í Tromsö í Noregi í vikunni. Steiner sagði að ekki hefði verið kostur á að fara með áætlunarflugi, en einkaþotur eru taldar meira umhverfisspillandi en áætlunarflugvélar. Steiner bætti því við að einkaþota hafi verið „mjög lítil,“ og sex manns hafi verið um borð auk hans sjálfs.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.

Einkaþotur eru reyndar vinsælar meðal margra helstu umhverfisverndarforkólfa heimsins. Þegar Al Gore heimsótti Noreg fyrir skömmu til að flytja þar boðskap sinn um hættur gróðurhúsaáhrifanna kom hann til Kristiansand í einkaþotu. Ýmsir helstu stuðningsmenn málstaðar Gore komu einnig í sínum þotum, þ.á m. norski umhverfissinninn og hóteleigandinn Petter Stordalen.

Steiner sagði við blaðamenn í Tromsö að hann hefði keypt svonefndan „umhverfisfarmiða“ til að vega upp á móti allri kolefnislosuninni sem einkaþotan hefði valdið. Hann sagðist ennfremur kaupa umhverfiskvóta í eigin nafni vegna allra þeirra ferðalaga sem hann þyrfti að fara í.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert