Munkar aftur út á götur í Búrma

Hópur búddamunka biðst fyrir í Búrma.
Hópur búddamunka biðst fyrir í Búrma. Reuters

Um 100 búddamunkar gengu í morgun gegnum borgina Pakkoku í Búrma. Með þessu brutu munkarnir gegn tilskipun þarlendra stjórnvalda, sem hafa bannað allar opinberar samkomur munka og mörg Búddaklaustur eru enn lokuð.

Von er á Ibrahim Gambari, sérlegum sendimanni Sameinuðu þjóðanna í málefnum Búrma, mun koma til landsins um næstu helgi og dvelja þar í viku. Erindið er að hvetja stjórnvöld til að taka upp lýðræðislegri stjórnarhætti.

Munkarnir í Pakkoku komu ekki með neinar pólitískar yfirlýsingar en göngunni var greinilega ætlað að ögra stjórnvöldum. Um mánuður er liðinn frá því stjórnvöld í Búrma beittu her og lögreglu til að bæla niður mótmælaaðgerðir, sem búddamunkar hófu og skipulögðu. Stjórnvöld viðurkenndu að um 20 manns hefðu þá látið lífið en stjórnarnandstæðingar segja að 200 manns hafi látist.

Um 80 búddaklaustur eru í Pakkoku og þar tóku munkar fyrst þátt í mótmælaaðgerðum í byrjun september. Mótmælin hófust hins vegar 19. ágúst þegar almenningur fór út á götu til að mótmæla því að eldsneytisverð var hækkað um 500%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert