Skipverjar börðust við sjóræningja

Bandarískir sjóliðar fluttu skipverja af norður-kóresku flutningaskipi um borð í bandarískt herskip til aðhlynningar í gær, eftir að n-kóreumennirnir lentu í átökum við sjóræningja sem reyndu að taka skip þeirra úti fyrir strönd Sómalíu, að því er bandaríski flotinn greindi frá í morgun.

Kóresku skipverjarnir höfðu betur í átökunum við sómölsku sjóræningjana sem réðust um borð í skip þeirra, og svo fór, að einn sjóræningi féll og þrír særðust. Einnig særðust þrír kóreskir skipverjar í átökunum við ræningjana, og báðu Kóreumennirnir bandaríska herskipið um læknisaðstoð.

Læknar af bandaríska herskipinu James E. Williams hlúðu að mönnunum sex, sem allir höfðu hlotið skotsár. Kóreumennirnir voru fluttir um borð í herskipið í gærkvöldi, en fengu að fara aftur um borð í skip sitt tveim tímum síðar.

Bandaríski flotinn sagði í morgun að sjóræningjarnir væru enn í haldi um borð í kóreska skipinu.

Á n-kóreska skipinu eru 22 skipverjar. Sjóræningjarnir tóku það á mánudaginn úti fyrir Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, en þangað hafði skipið komið með sykurfarm frá Indlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert