Fyrrum forseti Slóveníu látinn

Janez Drnovšek árið 2002 ásamt Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra.
Janez Drnovšek árið 2002 ásamt Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra. Árvakur/Árni Sæberg

Janez Drnovšek, fyrrum forseti og forsætisráðherra Slóveníu,  er látinn 57 ára að aldri eftir áralanga baráttu við krabbamein. Drnovšek leiddi sjálfstæðisbaráttu landsins árið 1991 þegar Slóvenía lýsti yfir sjálfstæði frá Júgóslavíu. Íslendingar urðu fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði landsins og sagði Drnovšek við Morgunblaðið árið 1994, að Slóvenar myndu aldrei gleyma því.

Drnovšek var forsætisráðherra Slóveníu árin 1992-2002 en þá var hann kjörinn forseti. Hann bauð sig ekki fram á ný þegar kjörtímabilinu lauk á síðasta ári og Danilo Turk var kjörinn forseti landsins í desember á síðasta ári.

Annað nýrað var fjarlægt úr Drnovšek árið 1999 vegna krabbameins og hann upplýsti síðar, að krabbameinið hefði breiðst út til lungnanna.  Á síðustu árum vakti Drnovšek athygli og aðdáun landa sinna þegar hann breytti um lífsstíl og skrifaði bækur sem flokka mátti undir nýaldarfræði. Hann sagðist hafa gert sér grein fyrir því, að hann myndi ekki hljóta bata eftir hefðbundnum leiðum og því hefði hann ákveðið að breyta um mataræði, lífsstíl og hugsunarhátt. 

Hann flutti frá höfuðborginni Ljubljana til þorpsins Zaplana þar sem hann bjó einn með hundinum sínum. Hann bakaði brauð og borðaði aðeins lífrænt ræktaða ávexti og grænmeti. Þá var hann ekki með sjónvarp.

Í bókum, sem Drnovšek skrifaði og seldust vel í Slóveníu, fjallaði hann m.a. um afleiðingar tækninnar og hvatti fólk til að reiða sig frekar á hvert annað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert