Prófkjörsdeilan harðnar

Stjórn kjördæmisráðs og kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hafa verið boðaðar til fundar í dag að Staðarflöt í Hrútafirði. Fundirnir eru haldnir í skugga deilna um prófkjör flokksins á laugardaginn, sem fara enn harðnandi.

Gísli Gunnarsson kjörnefndarmaður segir að nýjar upplýsingar séu komnar fram um brot á prófkjörsreglum, sem menn hafi ekki haft fyrir helgi er samkomulag var gert um að setja niður deilur.

Þórólfur Halldórsson, formaður kjördæmisráðsins, boðaði til fundarins í gær. Aðspurður hvort til greina komi að hrófla við niðurstöðum prófkjörsins segir Þórólfur að það hafi ekki komið til umræðu. Hann bendir á að samkvæmt reglum flokksins sé uppstilling á lista endanlega í höndum kjördæmisráðs. Prófkjörið sé aðeins bindandi að því leyti að fái menn tilskilið hlutfall atkvæða þá beri kjörnefnd að leggja þá niðurstöðu fyrir kjördæmisráðið. Ekkert banni að kosið verði að nýju en slík ákvörðun verði einungis tekin af kjördæmisráði.

Vilhjálmur Egilsson hefur sagt að hann hafi alls enga ástæðu til að ætla að utankjörstaðaatkvæði sem hafi með réttu átt að ógilda hafi ekki verið fleiri en 80. "Ég veit ekkert hvað hann hefur fyrir sér í því. Ég býst við því að þetta séu einhverjar ágiskanir," segir Þórólfur. Hann minnir á að eftir að málið kom upp hafi verið haldinn fundur á fimmtudegi þar sem samþykkt hefði verið að finna öll atkvæði sem voru greidd með óeðlilegum hætti. Þá hafi kjördæmisráðið ekki haft hugmynd um hversu mörg atkvæðin voru en kjörnefndin hafi verið einróma sammála um niðurstöðuna þegar fundað var um málið áður en talning hófst á sunnudag.

Gísli Gunnarsson, forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar, sem á sæti í kjörnefndinni, segist ánægður með að boðað hafi verið til fundarins. "Það verður farið alveg yfir stöðuna og þau mál sem helst hafa verið á baugi verða rædd, hvort eitthvað sé hægt að gera eða hvort þetta sé það sem menn verða að sætta sig við," segir hann og minnir á að hægt sé að vísa deilum um prófkjör til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi þó engar fastmótaðar tillögur til að leggja fyrir fundinn.

Nýir hlutir að koma í ljós

Hann segir slæmt að vita af þeim aðferðum sem notaðar voru við utankjörfundaratkvæðagreiðsluna. "Það er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að menn vissu af þessu áður en talning hófst en það var ákveðið að láta slag standa," segir hann. "Að vísu eru að koma hlutir í ljós núna sem menn vissu ekki fyrir helgina. Það virðast hafa verið fleiri fyrirtæki sem farið var í og fleiri menn hafi gengið í hús og annað slíkt."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert