Nærri 3 þúsund lúxusbílar voru í lest skips sem sökk á Ermarsundi

Norska skipið Tricolor marar í hálfu kafi.
Norska skipið Tricolor marar í hálfu kafi. AP

Norska flutningaskipið Tircolor marar nú í hálfu kafi á Ermarsundi, um 35 km norður af Dunkurque eftir árekstur í morgun við gámaskipið Kariba, sem skráð er á Bahamaeyjum. 2852 lúxusbílar af gerðunum BMW, Saab og Volvo eru í lest norska skipsins og eru þeir metnir á um 2,5 milljarða króna. Áhöfn skipsins var bjargað skömmu eftir áreksturinn í morgun og engan sakaði. Grunnt er þar sem skipið er og hafa frönsk stjórnvöld skipað Wilhelmsen Lines, eigendum norska skipsins, að fjarlægja um 2 þúsund tonn af eldsneyti úr tönkum skipsins en ekki er sjáanleg olíumengun frá skipsflakinu enn sem komið er.

Dimm þoka var á svæðinu þegar skipin rákust saman í morgun en talið er að bilun hafi orðið í ratsjá annars skipsins. Innan klukkustundar frá slysinu höfðu franskar björgunarsveitir bjargað 24 úr áhöfn norska skipsins. Þremur var bjargað um borð í Kariba sem sigldi undir eigin vélarafli til Antwerpen þótt það væri talsvert laskað. Flestir í áhöfninni eru frá Filippseyjum en skipstjórinn er norskur og stýrimaðurinn sænskur.

Tricolor var á leið með bílana og 77 gáma til Southamton í Englandi frá Zeebrugge í Belgíu þegar slysið varð. Skipið sjálft er metið á um 2,2 milljarða króna. Kariba var á leið frá Antwerpen til Le Havre í Frakklandi og sigldu skipin bæði í sömu átt þegar þau rákust saman.

Norska skipið Tricolor marar í hálfu kafi.
Norska skipið Tricolor marar í hálfu kafi. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert