Frágengið að David Beckham fari til Real Madrid?

David Beckham fagnaði tveimur mörkum gegn Real Madrid á miðvikudag.
David Beckham fagnaði tveimur mörkum gegn Real Madrid á miðvikudag. AP

Enski netmiðillinn YNWA fullyrti rétt í þessu að frágengið væri að David Beckham, landsliðsfyrirliði Englands í knattspyrnu, færi frá Manchester United til Real Madrid í sumar.

Fréttaritari YNWA á Spáni hefur þetta eftir heimildarmönnum úr röðum Real Madrid. Sagt er að viðræður Beckhams við spænska félagið hafi hafist af alvöru á föstudaginn langa og Alex Ferguson ekki valið hann í byrjunarliðið gegn Arsenal og Real Madrid eftir að hann komst að því sanna í málinu. Beckham hafi síðan gefið spænska félaginu jákvætt svar nokkrum klukkutímum fyrir leik þess við Manchester United á miðvikudaginn.

Beckham er sagður fá sömu laun hjá Real Madrid og hann er með hjá Manchester United, um 50 milljónir króna á mánuði, auk þess sem félagið fái ráðstöfunarrétt á ímynd hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert