Gengislækkun gjaldmiðla skilað sér misjafnlega vel til neytenda

Áhrif verðmeiri krónu hafa skilað sér misjafnlega til neytenda að undanförnu, að mati greiningardeildar Íslandsbanka. Á meðan innfluttar mat- og drykkjarvörur hafi lækkað í takt við lækkun á verði erlendra gjaldmiðla hefur verð á bifreiðum, fötum og skóm og fleiri vara ekki breyst mikið.

Í niðurstöðum sínum segir Íslandsbanki að ekki sé hægt að nefna eina skýringu á ólíkri verðþróun ofangreindra vöruflokka. Um sé að ræða samband kerfisbreytinga, stöðu markaða, hagræðingar, notkunar gengisvarna, samdráttar og vaxtar svo eitthvað sé nefnt.

„Heilt á litið virðist sem sú lækkun sem orðið hefur á verði erlendra gjaldmiðla að undanförnu eigi eftir að skila sér að einhverju marki í verðlækkun innflutnings," segir bankinn.

Þar segir og að fjölgun lágverðsverslana, hagræðing í innkaupum, notkun gengisvarna og fleiri þættir leiddu til þess að verð á fötum og skóm hækkaði ekki með lækkun á gengi krónunnar á árunum 2000 og 2001. Til að standa vörð um markaðshludeild sína við upphaf samdráttar hafi fyrirtækin í greininni leitast við að taka á sig gengisbreytingarnar og skerða þannig arðsemi og framlegð. Nú á síðustu misserum, þegar krónan hafi verið að styrkjast, virðast fyrirtækin í greininni hafa leitast við að ná fyrri framlegð með því að breytta verði lítið.

„Það er þó ekki eina hugsanlega skýringin á því að verð hefur haldist uppi. Önnur skýring kann að vera sú að vaxandi kaupmáttur hvetur neytendur til að færa sig yfir í háverðsverslanir en það þrýstir verði á fötum og skóm í vísitölu neysluverðs upp á við," segir Íslandsbanki. Og bætir við að svipaða sögu megi segja af fyrirtækjum í innflutningi bifreiða.

Verð á innfluttum mat- og drykkjarvörum hafi hins vegar breyst mjög í takt við breytingar á gengi krónunnar. Líkleg skýring sé m.a. sú að vöruvelta sé mikil í sölu matvæla og ætla megi að breytingar skili sér hratt í smásöluverð þar af leiðandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK