Glerfarmur fór á götuna

Glerfarmurinn brotnaði í mél og liggja glerbrotin yfir þrjár akreinar …
Glerfarmurinn brotnaði í mél og liggja glerbrotin yfir þrjár akreinar á Vesturlandsvegi. mbl.is/Júlíus

Flutningabíll með glerfarm rakst upp undir Höfðabakkabrú í Reykjavík laust fyrir klukkan 17 í dag með þeim afleiðingum að glerfarmurinn brotnaði í mél og rigndi glerbrotum yfir nærstadda bíla. Engan sakaði en glerbrotin þekja talsvert stórt svæði á götunni við brúna. Búast má við miklum umferðartöfum næstu tvo tímana er borgarstarfsmenn hreinsa upp glerið.

Glerflutningabíllinn var með 20 tonna glerfarm á leið í austurátt og hafnaði hann að mestu á götunni og skemmdist einn bíll er glerstykkjum rigndi yfir hann.

Að sögn lögreglu er hámarkshæð farms á bílum á þessum kafla 4,20 metrar en um 4,40-4,50 metrar eru upp í brúna og því ljóst að farmurinn hefur verið langt yfir leyfilegum hæðarmörkum.

Hreinsunarflokkur frá borginni er kominn á vettvang en meðal annars verður hann að notast við moksturstæki svo þykkur er glerhaugurinn á götunni. Dreifðist glerið yfir allt að þrjár akreinar frá Höfðabrúnni og austur undir Selectverslunina sem er um 100 metrum austar. Vegna óhappsins hafa orðið miklar tafir á umferð um Ártúnsbrekku og Vesturlandsveg og verður svo áfram næstu tvær stundirnar eða svo meðan hreinsun stendur yfir.

Flutningabíllinn sem rakst upp undir brúna.
Flutningabíllinn sem rakst upp undir brúna. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert