Hátíðarhöld hafin í Normandí

Jacques Chirac flytur ávarp í Colleville-sur-Mer.
Jacques Chirac flytur ávarp í Colleville-sur-Mer. AP

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, og Jacques Chirac, Frakklandsforseti, könnuðu fransk-bandarískan heiðursvörð við bandarískan hermannagrafreit í Colleville-sur-Mer í Frakklandi í morgun við upphaf hátíðarhalda vegna þess að í dag eru 60 ár liðin frá innrásinni í Normandí. Um 20 þjóðarleiðtogar munu í dag taka þátt í hátíðarhöldum í Normandí, þar á meðal Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands. Gífurleg öryggisgæsla er á svæðinu. Franskar herþotur eru í viðbragðsstöðu og um 15000 her- og lögreglumenn sjá um gæslu. Aðgangur að svæðinu verður takmarkaður.

Athöfnin í morgun hófst með því að skotið var 21 skoti úr fallbyssum á klettunum sem gnæfa yfir Omaha strönd en þar létu yfir 2000 Bandaríkjamenn lífið þegar þeir reyndu að ganga á land. Alls gengu um 156 þúsund hermenn bandamanna á land á fimm ströndum í Normandí en mannfallið var mest á Omaha. Sumir telja að um 2500 hermenn bandamanna hafi fallið innrásardaginn en aðrir að um 5000 hafi látið lífið á ströndum Normandí þennan dag.

Í ávarpi sínu sagði Chirac að Frakkar myndu aldrei gleyma þessari stund og þeirri fórn sem hermennirnir hefðu fært. „Þeir eru einnig okkar synir nú," sagði hann og bætti við að Frakkar sendu Bandaríkjamönnum þakkláta kveðju vináttu og bræðralags.

Chirac nefndi ekki innrásina í Írak, sem Frakkar voru andvígir, en vottaði Bandaríkjamönnum samúð vegna hryðjuverkaárásanna árið 2001.

Elísabet Englandsdrottning tók þátt í athöfn á Juno strönd, sem kanadískum hermönnum var falið að ná á sitt vald í innrásinni. Þakkaði hún Kanadamönnum fyrir að hafa barist fyrir frelsun Evrópu.

Síðar í dag verður athöfn í Arromanches í Normandí og munu Vladímír Pútín, forseti Rússlands og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, m.a. verða þar viðstaddir. Þar verður einnig Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, og er það í fyrsta skipti sem leiðtogi Þýskalands tekur þátt í athöfn til að minnast innrásarinnar. Um 1300 hermenn frá 14 ríkjum munu taka þátt í skrúðgöngu og bandarískar, belgískar, breskar, hollenskar, norskar og franskar herþotur fljúga yfir. Þá taka sjö þjóðir þátt í siglingu herskipa undan Arromanchesströnd.

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, og Jacques Chirac, Frakklandsforseti, kanna heiðursvörð …
George W. Bush, Bandaríkjaforseti, og Jacques Chirac, Frakklandsforseti, kanna heiðursvörð við grafreitinn í Colleville-sur-Mer þar sem 9387 bandarískir hermenn eru grafnir. AP
Bandarískir hermenn vaða í land á Normandí 6. júní 1944.
Bandarískir hermenn vaða í land á Normandí 6. júní 1944. AP/Bert Brandt)
Bandarískir hermenn flytja búnað sinn á land á Omaha-strönd í …
Bandarískir hermenn flytja búnað sinn á land á Omaha-strönd í Normandí. AP
Bandarískir herlæknar gefa særðum hermanni blóðvökva í æð á strönd …
Bandarískir herlæknar gefa særðum hermanni blóðvökva í æð á strönd í Normandí 6. júní 1944. AP
Eftir að hafa gengið á land á Normandy biðu þessir …
Eftir að hafa gengið á land á Normandy biðu þessir bresku hermenn eftir merki um að sækja fram. AP
Bandarískur lendingarprammi fullur af hermönnum á leið til Normandí 6. …
Bandarískur lendingarprammi fullur af hermönnum á leið til Normandí 6. júní 1944. AP
Hermenn úr bandarísku 16. stórskotaliðsherdeildinni sem særðust þegar þeir gengu …
Hermenn úr bandarísku 16. stórskotaliðsherdeildinni sem særðust þegar þeir gengu á land á ströndinni sem nefnda var Omaha. Hermennirnir bíða við kalkklettana í Collville-sur-Mer eftir að verða fluttir í sjúkraskýli. AP
Enn má sjá minjar um innrásina í Normandí. Á myndinni …
Enn má sjá minjar um innrásina í Normandí. Á myndinni sést ferðamaður skoða landgöngubrú á Arromanches-Les-Bains strönd í Frakklandi en þar fer minningarathöfnin um innrásina fram. AP
Bandarískir hermenn hjálpa örmagna félögum sínum á land á ströndinni …
Bandarískir hermenn hjálpa örmagna félögum sínum á land á ströndinni sem nefnd var Utah meðan á innrásinni 6. júní 1944 stóð. AP
Loftmynd sem sýnir innrásina í Normandí 6. júní 1944.
Loftmynd sem sýnir innrásina í Normandí 6. júní 1944.
Dwight D. Eisenhower stappar stálinu í hermenn á Englandi áður …
Dwight D. Eisenhower stappar stálinu í hermenn á Englandi áður en þeir héldu yfir Ermarsund til Frakklands 6. júní 2004. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert