Efnt til samskota meðal Bolvíkinga til að reisa sendi fyrir SkjáEinn

Hópur áhugamanna í Bolungarvík leitar nú leiða til að fjármagna uppsetningu á búnaði til útsendinga á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar SkjásEins í Víkinni. Forsvarsmenn SkjásEins höfðu nýverið samband við bæjarstjórann í Bolungarvík og buðust til að setja upp sendi ef heimamenn kostuðu hann til hálfs á móti stöðinni, að því er fram kemur á fréttavefnum vikari.is. Að sögn Helga Jónssonar, rafeindavirkja og áhugamanns um framtakið, mun uppsetning búnaðarins kosta um 1.800 þúsund og yrði hlutur heimamanna því 900 þúsund.

Helgi segir aðrar kvaðir ekki hafa verið settar af SkjáEinum og ef af yrði myndu Bolvíkingar því eftirleiðis njóta dagskrár stöðvarinnar gjaldfrjálst eins og margir landsmenn.

„Við ætlum að senda bréf á hvert heimili í Bolungarvík og bjóða mönnum að styrkja þetta verkefni um fimm þúsund krónur sem samsvarar u.þ.b. mánaðar áskrift að Stöð 2“, segir Helgi en 900 þúsund króna framlag heimamanna jafngildir u.þ.b. fimm þúsund krónum á hvert heimili í Bolungarvík.

Erindi SkjásEins hefur ekki verið tekið fyrir af bæjaryfirvöldum með formlegum hætti enda eru nefndir og ráð bæjarins í sumarfríi. Aðspurður um viðbrögðin segir Helgi bæjarbúa jákvæða gagnvart framtakinu. „Menn eru jákvæðir og hafa verið að velta þessum málum fyrir sér síðustu misserin. Þetta hefur pínulítið að segja um lífsgæðin hérna eins og annars staðar og við viljum náttúrlega búa við það sama og aðrir“, sagði Helgi.

Frétt Bæjarins besta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert