Háskólamenntun kvenna skilar hæstri arðsemi

Háskólanám kvenna skilar að meðaltali hæstri arðsemi, að því er …
Háskólanám kvenna skilar að meðaltali hæstri arðsemi, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Hagfræðistofunar Háskóla Íslands. mbl.is/Árni Torfason

Háskólamenntun kvenna skilar að meðaltali hæstri arðsemi, en einkaarðsemi hennar, sá fjárhagslegi ávinningur sem einstaklingur getur vænst umfram kostnað, er tæplega 11%, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um arðsemi menntunar á Íslandi. Þar segir að þegar reiknuð er arðsemi menntunar með gögnum frá árinu 1996 og borin saman við niðurstöður hinnar nýju rannsóknar komi í ljós að arðsemi háskólamenntunar kvenna hafi aukist umtalsvert en arðsemi annars náms karla og kvenna hafi breyst mun minna.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá stofnuninni var í rannsókninni metin arðsemi framhaldsskólanáms og háskólanáms karla og kvenna á Íslandi.

Bæði þess að reikna út einkaarðsemi náms var sjónum beint að samfélagslegri arðsemi, sem skilgreina má sem þá virðisaukningu í hagkerfinu í heild sem leiðir af námi einstaklings, að því er segir í tilkynningunni.

„Virðisaukinn sem einstaklingur skapar felst í hærri launatekjum að námi loknu sem endurspegla meiri framleiðslu í hagkerfinu. Beitt er núvirðisreikningum þar sem núvirt greiðsluflæði fórnarkostnaðar menntunar annars vegar, og væntrar tekjuaukningar hins vegar eru borin saman. Sá núvirðisstuðull sem gerir þessi greiðsluflæði jöfn er skilgreindur sem arðsemi menntunar, segir jafnframt í tilkynningunni. Þar kemur fram að niðurstöður séu bornar saman við arðsemismat sem gert hafi verið fyrir nokkur lönd á vegum OECD og fyrri íslenskar rannsóknir á málinu.

Á eftir háskólamenntun kvenna, hvað arðsemi varðar er framhaldsskólamenntun karla. Nám á framhaldsskólastigi skilar þeim að meðaltali rúmlega 7% einkaarðsemi, en einkaarðsemi framhaldsskólanáms kvenna og háskólanáms karla er svo heldur lakari; Háskólanám karla skilar þeim að jafnaði 5,5% arðsemi og framhaldsskólanám kvenna skilar rúmlega 4% arðsemi, að því er segir í tilkynningu Hagfræðistofnunar.

Minnkandi líkur á atvinnuleysi með aukinni menntun

Stærstu einstöku áhrifaþættir á arðsemi menntunar á Íslandi eru atvinnuleysisáhætta og breytingar á skattbyrði. Minnkandi líkur á atvinnuleysi með aukinni menntun auka nokkuð arðsemi menntunar en hækkandi skattbyrði með auknum heildartekjum dregur úr einkaarðsemi náms.

Samkvæmt upplýsingum Hagfræðistofnunar gera ofangreindar niðurstöður ekki ráð fyrir að fólk vinni á sumrin á meðan námi stendur, enda eigi sú forsenda ágætlega við í þeim löndum sem aðferðirnar voru þróaðar fyrir af OECD. Séu laun fyrir sumarvinnu tekin með í reikninginn hækki arðsemin töluvert.

Ekki fjárhagslegur arður af námi grunnskólakennara

Segir í tilkynningu stofnunarinnar að sé litið til einstakra faghópa komi í ljós að verkfræðingar, læknar, tæknifræðingar og viðskipta- og hagfræðingar fái prýðilegan arð af háskólanámi sínu, en einkaarðsemi hjá öllum þessum hópum hafi mælst um eða yfir 20%.

Aðrir faghópar sem fyrst og fremst starfi hjá hinu opinbera, eins og hjúkrunarfræðingar, prestar, sálfræðngar, kennarar og lögfræðingar er starfa hjá ríkinu, njóti einnig 6-10% arðsemi, nema grunnskólakennarar, en þeir hafa ekki fjárhagslegan arð af háskólanámi sínu.

„Þegar gerður er samanburður á þessum tölum við niðurstöður úr rannsókn sem gerð var árið 1992 kemur í ljós að arðsemi verkfræðináms og viðskipta- og hagfræðináms hefur lítið breyst, sem bendir til þess að hin háa arðsemi þessa náms sé ekki tímabundið ástand ójafnvægis milli framboðs of eftirspurnar, heldur fremur tilkomin vegna rentu af þeirri takmörkuðu auðlind sem felst í getu og áhuga á slíku námi. Arðsemi hjúkrunarfræði, framhaldsskólakennaranáms og sálfræði hefur breyst frá því að vera neikvæð til þess að vera ásættanleg,“ segir í tilkynningunni.

Skólagjöld minnka arðsemi um 0,2-1,5%

Þá segir þar að rafeindavirkjar státi af arðsömustu framhaldsskólamenntuninni af þeim hópum sem bornir voru saman á því stigi, en einkarðsemi rafeindavirkjunar er tæp 16%. Bakarar, rafvirkjar, prentarar og bifvélavirkjar fá um það bil 11-13% arð af iðnmenntun sinni en eina stétt framhaldsskólamenntaðra þar sem konur eru í meirihluta af þeim sem metnar voru, sjúkraliðar, fá heldur lakari arð af náminu en einkaarðsemi sjúkraliðanáms er tæplega 8%.

„Almennt reynist ekki stórvægilegur munur milli samfélagslegrar arðsemi og einkaarðsemi, hvort sem litið er til framhalds- eða háskólamenntunar. Þó er samfélagsleg arðsemi nokkru lægri en einkaarðsemin þegar um háskóla er að ræða og nokkru hærri en einkaarðsemin í tilviki framhaldsskóla. Munurinn sem hér um ræðir er þó ekki af þeirri stærðargráðu að út frá honum sé hægt að færa rök fyrir að stjórnvöld auki eða dragi úr stuðningi við menntun frá því sem nú er,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Skýrslan var unnin af Jóni Bjarka Bentssyni og Þórhalli Ásbjörnssyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert