SMÁÍS kærir nemendafélag vegna kvikmyndasýningar

Vince Vaughn í hlutverki sínu í myndinni Dodgeball.
Vince Vaughn í hlutverki sínu í myndinni Dodgeball.

SMÁÍS (Samtök Myndrétthafa á Íslandi) hafa lagt fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík gegn forsvarsmönnum Nemendafélags Kvennaskólans á þeirri forsendu að listanefnd nemendafélags Kvennaskólans hafi haldið sýningu á kvikmyndinni Dodgeball í húsnæði skólans 9. september sl., þar sem aðgangseyris var krafist.

SMÁÍS segir, að sýningin hafi verið haldin þremur vikum áður en umrædd mynd var tekin til sýninga í kvikmyndahúsum hér á landi.

Í tilkynningu frá SMÁÍS segir, að forsvarsmenn félagsins séu kærðir fyrir að halda opinbera sýningu á myndinni án leyfis rétthafa auk þess sem ljóst sé að ólöglegt eintak af myndinni var notað til sýningarinnar, en kvikmyndin hafi hvergi í heiminum verið gefin út á DVD eða VHS formi. Erlendur eigandi myndréttar að umræddri mynd er 20th Century Fox en aðilar innan SMÁÍS hafa keypt einkarétt til dreifingar og sýningar á myndinni hér landi.

Þá segir, að stjórn SMÁÍS hafi ákveðið að verði sambærilegar sýningar haldnar í skólum án leyfis rétthafa, megi viðkomandi aðilar eiga von á að málið verði kært til lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert