Arafat í lífshættu

Við bækistöðvar Arafats í Ramallah í kvöld.
Við bækistöðvar Arafats í Ramallah í kvöld. AP

Heilsu Yassers Arafats Palestínuleiðtoga hefur hrakað svo í dag, að hann er nú í lífshættu, að því er fréttastofur hafa eftir nánum ráðgjafa hans. Eiginkona Arafats, Suha, er á leiðinni til Ramallah, þar sem Arafat hefur dvalið undanfarin ár. Hún er búsett í Frakklandi.

Ísraelska útvarpið greindi frá því dag, að Arafat hefði misst meðvitund. Vegna ástands Arafats hefur palestínsku öryggislögreglunni verið skipað í viðbragðsstöðu.

„Ástandið er alvarlegt, á morgun verðum við að íhuga alvarlega hvað gera ber varðandi hlutverk leiðtoga Palestínumanna,“ sagði ráðgjafi Arafats við AFP.

Hópur lækna er nú að rannsaka Arafat, en ísraelska útvarpið sagði fyrr í kvöld að Arafat hefði misst meðvitund „fyrir nokkrum klukkustundum“.

Ísraelskir embættismenn sögðu í kvöld, að Arafat muni fá að fara hvert sem hann kjósi til að leita sér lækninga en hann hefur verið í einkonar stofufangelsi í Ramallah í þrjú ár.

Arafat er 75 ára. Hann veiktist um helgina og hefur síðan gengist undir fjölda rannsókna. Misvísandi fregnir hafa borist af því hvað ami að honum, hann hefur verið sagður með flensu, með gallstein og jafnvel krabbamein, en í dag sögðu læknar að blóðrannsókn hefði sýnt að ekki væri um krabbamein að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert