Níu mótmælendur handteknir á byggingarsvæði Alcoa í Reyðarfirði

Frá framkvæmdum í Reyðarfirði.
Frá framkvæmdum í Reyðarfirði. mbl.is

Lögregla hefur handtekið níu mótmælendur á byggingarsvæði Alcoa í Reyðarfirði, að sögn Björns S. Lárussonar, samskiptafulltrúa verktakafyrirtækisins Bechtel, sem er á staðnum. Þrír mótmælendur sem klifruðu upp í krana á staðnum á ellefta tímanum í morgun eru enn uppi í krönunum og þriggja mótmælenda er leitað, en alls mættu fimmtán mótmælendur á svæðið í morgun. Í yfirlýsingu sem aðstandendur mótmælanna hafa sent frá sér segir að aðgerðin í dag sé ein af mörgum sem ráðist verði í gegn Alcoa og öðrum fyrirtækjum á sama sviði á Íslandi og víðar um heiminn.

Í yfirlýsingunni segir að í dag hafi hópur aðgerðasinna ráðist inn á byggingarsvæði Alcoa í Reyðarfirði og klifrað upp í krana á svæðinu. Markmiðið með aðgerðunum hafi verið að koma í veg fyrir að vinna gæti farið fram á svæðinu. „Aðgerðunum er beint gegn Alcoa vegna þátttöku fyrirtækisins í stíflugerðinni við Kárahnjúka og öðrum fyrirhuguðum stíflugerðum og álbræðslum á Íslandi og eyðileggingu á umhverfi víða um heiminn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert