Halldór lýsti því yfir að Ísland væri í kjöri til öryggisráðs SÞ

Halldór Ásgrímsson flytur ávarp á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í kvöld.
Halldór Ásgrímsson flytur ávarp á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Reuters

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, lýsti því yfir í ávarpi, sem hann flutti á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York í kvöld, að Ísland væri í fyrsta skipti í framboði til öryggisráðs SÞ á árunum 2009 og 2010. Þá sagði Halldór í ávarpinu, að ef ekki yrði komið á umbótum innan öryggisráðins muni það skorta styrk til að tryggja og viðhalda friði. Lagði hann áherslu á að ljúka yrði því verki fyrir árslok.

„Að lokum, herra forseti, teljum við að Ísland geti lagt sitt að mörkum til friðar og velferðar allra aðildarríkjanna. Af þeirri ástæðu er Ísland í fyrsta skipti í framboði til sætis í öryggisráðinu á kjörtímabilinu 2009-2010," sagði Halldór í ávarpi sínu.

Þessi yfirlýsing var ekki í skrifuðum ræðutexta, sem birtist á vef Sameinuðu þjóðanna eftir að forsætisráðherra hafði flutt ræðu sína.

Halldór lagði sérstaka áherslu á stöðu þróunarríkja og stofnun mannréttindaráðs og friðarnefndar. Hann fordæmdi hryðjuverk og sagði að það væri skylda aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að gera alþjóðasamning gegn hryðjuverkum fyrir lok yfirstandandi allsherjarþings samtakanna.

Fundurinn er haldinn á þeim tímamótum að 60 ár eru frá stofnun samtakanna og fimm ár eru liðin frá því ríki heims settu sér þúsaldarmarkmiðin í þróunarmálum. Markmiðið með fundinum var að gera allsherjar endurbætur á starfsemi samtakanna í þágu öryggis, friðar og þróunar.

Á morgun tekur Halldór þátt í hringborðsumræðum leiðtoga um niðurstöður fundarins og næstu skref.

Ræða Halldórs Ásgrímssonar

Ræða Halldórs á vef SÞ

Frá þingsal Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Dominique …
Frá þingsal Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakka, er í ræðustóli. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert