Kona hrópaði „hákarl!“ en enginn tók hana alvarlega

Stór hvíthákarl.
Stór hvíthákarl. Reuters

Baðstrandargestir í Ástralíu virtu að vettugi tvítuga konu, Söruh Kate Whiley, sem svamlaði í sjónum og hrópaði ,,hákarl!" þar sem þeir héldu að hún væri að gera að gamni sínu. Svo reyndist þó ekki vera og missti konan báða handleggi í hákarlskjaft og var flutt á sjúkrahús þar sem hún lét lífið.

Hákarlaárásin átti sér stað á strandstaðnum Amity Point nærri Brisbane. Málið allt þykir minna á kvikmyndina Ókindin (Jaws) sem fjallar um stóran hvíthákarl sem ræðst ítrekað á baðstrandargesti. Í henni er einmitt atriði þar sem fólk virðir að vettugi neyðaróp fórnarlambs sem svo verður hákarlinum að bráð á baðstrandareyjunni Amity Island.

Fólk áttaði sig þó fljótlega á því að um fúlustu alvöru væri að ræða þegar það sá blóði litaðan sjóinn. „Ég reyndi að grípa í annan handlegginn á henni en hann var horfinn," sagði einn strandgestanna, Ungue Tofo. Lögreglan telur að allt að þrír hákarlar hafi ráðist á konuna, svo illa hafi hún verið leikin.

Árásir hákarla á menn eru afar sjaldgæfar og er þetta í fyrsta sinn í 44 ár sem hákarl ræðst á mann við baðstrendur sem tilheyra Queensland í Ástralíu. Fréttavefur breska dagblaðsins The Times greindi frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert