18 mánaða fangelsi, þar af 15 skilorðsbundnir, fyrir að verða valdur að bana manns

Hús Hæstiréttar.
Hús Hæstiréttar.

Hæstiréttur hefur dæmt Scott Mckenna Ramsay í 18 mánaða fangelsi, þar af 15 mánuði skilorðsbundið, fyrir að veita öðrum manni hnefahögg sem leiddi til bana hans. Eins dags gæsluvarðhald dregst frá refsingunni. Staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjaness, sem tók tillit til þess við mat á refsingu, að Ramsay hafði ekki ásetning til þess að vinna slíkt tjón sem raun varð og afleiðingar hnefahöggsins urðu mun alvarlegri en höggið gaf tilefni til.

Ramsay var einnig dæmdur til að greiða foreldrum mannsins, sem hann sló, samtals 1560 þúsund íslenskar krónur og tæpar 65 þúsund danskar krónur í bætur. Einnig þarf hann að greiða sakarkostnað, 1,1 milljón króna.

Scott Ramsay, sem er breskur ríkisborgari en búsettur hér á landi, var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás svo að mannsbani hlaust af, með því að hafa í nóvember árið 2004 slegið danskan ríkisborgara, Flemming Tolstrup, hnefahöggi efst á hálsi hægra megin, með þeim afleiðingum að blæðing sem Flemming hlaut milli heila og innra heilahimna af völdum höggsins leiddi til dauða hans. Þetta gerðist á skemmtistað í Keflavík.

Hæstiréttur segir í dómi sínum, að við ákvörðun refsingar verði ekki litið fram hjá hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af brotinu. Ekki verði talið að framkoma hins látna hafi gefið tilefni til árásarinnar sem var óvænt og virðist hann ekkert ráðrúm hafa haft til að verjast henni. Á hinn bóginn verður ekki talið að ákærði hafi beitt sérlega hættulegri aðferð við atlöguna og ljóst sé að afleiðingar af hnefahöggi hans urðu mun alvarlegri en við mátti búast. Þannig hafi réttarmeinafræðingur borið fyrir héraðsdómi, en hún gerði krufningarskýrslu vegna hins látna, að við hverjar 2500 krufningar vegna áverka sem hljótist af líkamsárásum megi búast við einu slíku tilviki og í heildina miðað við aðra áverka sem hljótast af líkamsárásum þá sé þetta óskaplega sjaldgæft.

Hæstiréttur segir síðan, að ákærði hafi framið brotið í skammvinnri geðshræringu. Hann hafi frá upphafi játað brot sitt og verið samvinnufús. Gögn málsins beri með sér að brotið hefur verið honum þungbært og hann hafi gert það sem í hans valdi hafi staðið til að bæta fyrir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert