Sauðburður gengur vel

Nýfædd lömb í Mýrdalnum.
Nýfædd lömb í Mýrdalnum. mbl.is/Jónas

Sauðburður gengur vel um allt land og eru menn bjartsýnir á að veðurblíðan haldist og klaki fari úr jörð. Mestu annir í sauðburði eru dagana 10. til 20. maí en þó hefur sauðburður dreifst heldur meira í seinni tíð vegna markaðssjónarmiða og bændur hafa verið hvattir til að setja dilkana á síðsumarmarkað.

„Maímánuður er allur mjög virkur sauðburðarmánuður þó að ær sem hafa verið sæddar með tæknifrjóvgun eða koma seint af fjalli og hafa umgengist hrúta eigi það til að bera um miðjan apríl,” sagði Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

„Sauðburður gengur vel, það sem ég hef heyrt af. Eftir mikinn kuldakafla og töluverðan snjó á Norðurlandi hefur hlýnað mikið síðustu vikuna og gróður lítur býsna vel út og klaki farinn úr jörðu á láglendi,” sagði Ólafur.

Hann var bjartsýnn á að vorið væri komið og vonaðist til að ekki kæmi bakslag í það, helst vildi hann fá góðar rigningar inn á milli til að örva gróðurvöxtinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert