Framlag til útgáfu Nyhedsavisen tvöfaldað ef þurfa þykir

Danska viðskiptablaðið Børsen hefur eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group, að Íslendingar séu reiðubúnir að leggja nýjum sjóði, sem mun gefa út Nyhedsavisen, til allt að 800 milljónir danskra króna, jafnvirði 9,6 milljarða íslenskra króna, ef nauðsynlegt þyki. Áður hefur verið upplýst, að til standi að leggja sjóðnum til um 350-400 milljónir danskra króna.

„Dagsbrún Mediafond, sem mun standa fyrir útgáfu Nyhedsavisen, hefur í upphafi 400 milljónir króna úr að spila - það mun Baugur tryggja. Og við höfum hugsað okkur að leggja sjóðnum til frekara fé verði það nauðsynlegt. Hvort sem um er að ræða 350 milljónir eða 600 milljónir, það skiptir engu," hefur Børsen eftir Jóni Ásgeiri en þeir Gunnar Smári Egilsson, sem í gær var ráðinn forstjóri Dagsbrún Mediafond, ræddu við blaðið á skrifstofum Nyhedsavisen á Holmen í Kaupmannahöfn í gær.

Berlingske Tidende fjallar einnig um Nyhedsavisen í dag og kemur m.a. fram að í dag mun danska samkeppniseftirlitið úrskurða hvort dreifingarfyrirtæki, sem Dagsbrún hefur stofnað með danska póstinum, stenst þarlend samkeppnislög.

Í viðtali við blaðið segir Gunnar Smári, að ekki sé enn búið að ganga frá fjármögnun sjóðsins og að minnsta kosti hálfur mánuður líði þar til því ljúki. Komið hefur fram, að Dagsbrún mun leggja sjóðnum til 50 milljónir danskra króna en Gunnar Smári segir, að afgangurinn, um 300 milljónir króna, komi frá helstu hluthöfum í Dagsbrún. Hann vill hins vegar ekki nefna þá þrátt fyrir ítrekaðar spurningar blaðsins en segir að menn þurfi ekki að efast um að peningarnir komi.

„Ég tel ekki að við skuldum neinum einhverjar útskýringar. Við erum sannfærðir um, að féð muni nægja fyrstu 18-24 mánuðina," segir Gunnar Smári og bætir við að auglýsingatekjur muni síðan að sjálfsögðu standa undir rekstrinum.

Berlingske segir, að Gunnar Smári gefi einnig til kynna, að hugsanlega verði aldrei upplýst nákvæmlega hverjir eigi Dagsbrún Mediafond. „Ég er ekki einu sinni viss um að við munum upplýsa hver á hvað og hve mikið í sjóðnum. Það hefur ekki verið ákveðið enn. Og ég sé enga ástæðu til þess," hefur blaðið eftir Gunnari Smára.

Hann segist einnig vera orðinn þreyttur á spurningum um fjármögnun Nyhedsavisen.

„Í Danmörku virðast menn helst kjósa að við hverfum af markaðnum. Og við erum orðnir verulega þreyttir á að svara þessari spurningu. Við þurfum ekki að sanna neitt. Við munum aðeins byrja að gefa blaðið út."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK