Gjörningur til minningar konum sem teknar voru af lífi á Þingvöllum

Myndlistarkonan Rúrí framdi í gærkvöldi gjörninginn „Tileinkun" í Drekkingarhyl á Þingvöllum, til að heiðra minningu kvenna sem teknar voru af lífi þar á 17. öld. Loftið var lævi blandið áður en gjörningurinn hófst enda vissu áhorfendur ekki á hverju var von og stemningin mikil eftir því.

Fjöldi aðstoðarmanna var Rúrí innan handar á svæðinu, þeirra á meðal tveir kafarar. Gjörningurinn hófst með því að Rúrí gekk út í vatnið og kafari sótti dularfullan hlut á botn hylsins og færði listakonunni. Í ljós kom að þar var poki sem bundið hafði verið fyrir. Pokann færði Rúrí upp á börur með hjálp fjögurra listakvenna, sem sýna með henni um þessar mundir í Hafnarborg, og tóku þær til við að klippa pokann opinn. Inni í honum voru kvenmannsföt og skór, táknrænar líkamsleifar kvenna sem var drekkt í hylnum.

Þetta var síðan endurtekið þar til börurnar voru orðnar átján, jafnmargar þeim konum sem drekkt var. Samkvæmt lögum þess tíma hafi hjú ekki mátt eiga börn, aðeins bændur. Undir lok gjörningsins var börunum raðað á flöt skammt frá hylnum og Rúrí las upp nöfn kvennanna, hvaðan þær voru og fyrir hvað þær voru teknar af lífi með svo grimmilegum hætti, en öllum var þeim drekkt fyrir að hafa orðið þungaðar utan hjónabands.

Rúrí sagði að loknum gjörningnum að með honum vildi hún heiðra minningu þeirra kvenna sem drekkt var fyrir það eitt að verða þungaðar og ala börn. Nafn Drekkingarhyls hafi borið á góma við undirbúning að sýningunni Mega vott og orðið henni svo hugfast að hún hafi orðið að fremja gjörninginn. Rúrí vonast til þess að með gjörningnum hafi þessar konur fengið uppreisn æru.

Fjöldi manns fylgdist með gjörningi Rúríar sem var umfangsmikill og stóð yfir í eina og hálfa klukkustund. Allt var þetta ítarlega skrásett af ljósmyndurum og myndatökumönnum.

Rúrí var fulltrúi Íslendinga á Feneyjatvíæringnum árið 2003. Þar sýndi hún afar eftirminnilegt verk þar sem íslenskir fossar voru settir í hólf, svo að segja, en verkið hét Archive – endangered waters. Hægt var að draga skjái út með myndbandi af hverjum fossi fyrir sig og verkið síðar sýnt í Listasafni Íslands. Rúrí er einnig þekkt fyrir útilistaverk eins og Regnbogann við flugstöðina í Keflavík og Fyssu í Grasagarðinum í Reykjavík og innsetningar, en sýningar- og myndlistarferill Rúríar spannar á fjórða áratug.

Rúrí sýnir nú í Hafnarborg með þeim Önnu Eyjólfsdóttur, Ragnhildi Stefánsdóttur, Þórdísi Öldu Sigurðardóttur og hinni heimsþekktu myndlistarkonu Jessicu Stockholder. Þær tóku þátt í gjörningnum í dag, allar nema Stockholder sem er í Bandaríkjunum. Gjörningurinn er hluti af sýningunni í Hafnarborg, Mega vott. Rætt verður við Rúrí í Kastljósi Sjónvarpsins á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson