Öfgasinnar taldir bera ábyrgð á eldflaugaárásinni í Aþenu

Brotinn gluggi vinstramegin við skiltið sýnir hvar eldflaugin fór inn …
Brotinn gluggi vinstramegin við skiltið sýnir hvar eldflaugin fór inn í húsið. AP

Gríska lögreglan segir að eldflauginni sem skotið var neðan af götu og yfir grindverk bandaríska sendiráðsins í Aþenu í morgun hafi verið skotið að skjaldarmerki utan á húsinu og farið inn í bygginguna og lent inni á salerni á þriðju hæð. Engan mun hafa sakað í árásinni sem er talin hafa verið gerð af grískum öfgasinnum fremur en alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum.

Árásin var gerð skömmu fyrir klukkan sex að staðartíma og samkvæmt fréttavef BBC kviknaði eldur út frá sprengjunni en hann var slökktur á skömmum tíma.

Sprengingin var þó nægilega öflug til að brjóta rúður í nágrenninu.

Bandaríska sendiráðið er vandlega styrkt og varin bygging og hefur oft orðið skotmark árása andófshópa sem mótmæla stefnu Bandaríkjanna.

í febrúar 1996 skemmdist húsið lítillega í svipaðri árás og gerð var í morgun, árásarmennirnir eru ókunnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert