Bandaríkjaforseti viðstaddur minningarathöfn um þá sem létust í Virginíu

Þúsundir námsmanna eru viðstaddir minningarathöfnina sem fram fer á háskólasvæðinu.
Þúsundir námsmanna eru viðstaddir minningarathöfnina sem fram fer á háskólasvæðinu. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti er viðstaddur minningarathöfn í Blacksburg, sem hófst nú klukkan 18, ásamt þúsundum annarra þar sem þeirra var minnst sem létu lífið í skotárásinni í tækniháskólanum í Virginíu í gær. Alls myrti byssumaðurinn 32 áður en hann tók eigið líf.

Tárvotir námsmenn föðmuðu hverjir aðra er þeir gengu inn í Cassell Coliseum í Blacksburg. Margir voru klæddir í rauðbrúnum og appelsínumgulum litum, sem eru litir háskólans. Mikil öryggisgæsla var á staðnum auk þess sem leyniþjónustumenn voru búnir að koma sér fyrir.

„Ég er hingað kominn til þess að sýna fórnarlömbunum stuðning og hvetja þá til þess að standa saman,“ sagði Kerri Symons, 21 árs gamall námsmaður við skólann.

Fyrr í dag greindi lögreglan frá því að 23 ára gamall enskunemandi, Cho Seung-Hui, hafi verið árásarmaðurinn í skólanum.

Hann myrti 30 manns í einni skólabyggingu áður en hann beindi byssunni að sjálfum sér og tók í gikkinn. Þá grunar lögreglu að Cho hafi einnig myrt tvo aðra einstaklinga skömmu áður í annarri skólabyggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert