Stjörnufræðingar finna brúnan dverg í nálægu sólkerfi

Tölvugerð mynd af stjörnunni 15 Sgi og brúna dvergnum, sem …
Tölvugerð mynd af stjörnunni 15 Sgi og brúna dvergnum, sem sýndur er sem ljós punktur í neðri hluta myndarinnar vinstra megin. AP

Stjörnufræðingar hafa náð myndum af svonefndum brúnum dvergi, en það er þéttur hlutur líkur reikistjörnu. Þessi brúni dvergur er á sporbraut um stjörnu mjög líka sólinni og er fjarlægðin milli brúna dvergsins og stjörnunnar álíka og milli sólarinnar og Úranus. Að sögn stjörnufræðinga hafa ekki áður fundist brúnir dvergar jafn nálægt móðurstjörnum og þessi.

Stjörnufræðingar fundu brúna dverginn með því að beita nýrri tækni við skoðun mynda sem teknar voru með stjörnusjónaukum á jörðu niðri. Plánetan fer í um það bil 2,1 milljarða km fjarlægð umhverfis stjörnuna 15 Sge, sem er í stjörnumerkinu Sagitta, eða Örinni, um 58 ljósár frá jörðu. Ljósár er sú vegalengd sem ljósið kemst á einu ári, eða um 9,6 billjónir km. Michael Liu, stjörnufræðingur við háskólann á Hawaii, sagði að þessi uppgötvun bendi til þess að sólkerfi sem myndist umhverfis stjörnur líkar sólinni, geti verið mismunandi að uppbyggingu. Liu sagði hugsanlegt að plánetur, svipaðar jörðinni, séu á braut umhverfis stjörnuna 15 Sge. Brúnir dvergar, sem stundum eru einnig nefndir misheppnaðar stjörnur, eru stærri en reikistjörnur en miklu minni en stjörnur. Talið er að þeir séu myndaðir úr lofttegundum en hafi ekki öðlast nægilegan þéttleika til að skína. Stjörnufræðingar segja að hlutir í geymnum þurfi að hafa að minnsta kosti 8% af massa sólarinnar til að byggja upp nægan innri þrýsting svo keðjuverkun, sem minnir á kjarnorkusprengingar, myndist og stjarnan skíni. Liu sagði að massi brúna dvergsins sé 55-78 sinnum meiri en Júpíters sem er stærsta reikistjarna sólkerfis okkar. Júpíter er 318 sinnum þyngri en jörðin. Háskólinn á HawaiiStjörnuathugunarstöðin Gemini
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert