Náttúruverndarsamtök Íslands segja raforkuverð til Alcoa lægra en talið var

Náttúruverndarsamtök Íslands segjast hafa aflað upplýsinga um það orkuverð, sem samið hafi verið um við Alcoa vegna álvers í Reyðarfirði. Segja Náttúruverndarsamtökin, að verðið sé nokkru lægra, en miðað var við í arðsemismati, sem samtökin létu vinna árið 2002.

Náttúruverndarsamtök Íslands segja á heimasíðu sinni, að miðað við spá Landsvirkjunar um þróun álverðs, sem byggi á langtímaframleiðslukostnaði, ætti álverðið að vera 1564 dalir á tonn þegar áætlað er að orkusala til Alcoa hefjist. Miðað við þessa tölu verði orkuverðið 17,4 mills á kwst. Miðað við núverandi gengi dals sé verðið því um 1,20 krónur en orkuverð er beintengt álverði.

„Umrætt verð er nokkru lægra en miðað var við í arðsemismati sem Náttúruverndarsamtökin létu vinna árið 2002. Samkvæmt því mati er núvirði Kárahnjúkavirkjunar neikvætt um 40 milljarða króna miðað við eðlilega ávöxtunarkröfu, að því gefnu að kostnaðaráætlun standist. Þá er ótalinn 2,6 milljarða beinn styrkur ríkisins til Alcoa og kostnaður vegna tafa á afhendingu orku til Alcoa en flest bendir til að afhending orku tefjist verulega vegna vanmats Landsvirkjunar á framkvæmdaáhættu," segja Náttúruverndarsamtök Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert