Geir: Mjög ábyrgir samningar

Skrifað undir kjarasamningana.
Skrifað undir kjarasamningana. Árvakur/Árni Sæberg

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að kjarasamningarnir, sem skrifað var undir á sunnudagskvöld, væru mjög ábyrgir. Hins vegar væri ljóst að þeir kæmu  mismunandi niður í atvinnulífinu eftir atvinnugreinum og fyrirtækjum og verði þyngri fyrir þau fyrirtæki, sem hafa vikið í meiri mæli frá kauptöxtum á síðustu misserum.

Þá væri ljóst, að samningarnir gætu komið þyngra niður á fyrirtækjum á landsbyggðinni þar sem launaskriðs hefði lítið gætt. Geir sagði, að vinnuveitendur gerðu sér grein fyrir þessu líka og teldu, að þrátt fyrir þetta væru þessir samningar meira en réttlætanlegir út frá þeirra sjónarmiðum.  

Geir gerði Alþingi grein fyrir þeim aðgerðum, sem ríkisstjórnin hefði gripið til í tengslum við kjarasamningana og standa nú yfir umræður um málið.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði að samningarnir væru góðra gjalda verðir, svo langt sem þeir næðu, en það væri því miður allt of skammt og samið hefði verið um mjög lág laun. Lægstu laun væru samkvæmt þeim aðeins rúmar 137 þúsund krónur á mánuði. 

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist fagna kjarasamningunum og þeirri stefnu, sem þar var mótuð, að hækka lægstu launin. Bætti Guðni við, að með þeim hefði verið stigið skref sem framsóknarmenn hefðu vonast til að yrði stigið árum saman þótt laun væru enn allt of lág á Íslandi. Ríkisstjórnin hefði hins vegar ekki tekist á við það, sem mestu máli skipti: verðbólguna. Sagðist Guðni ekki ætla að sitja á neinum friðarstóli gagnvart stjórninni í þeim efnum.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að lægstu taxtar og lægstu bætur almannatrygginga dugi ekki fyrir framfærslu. Það markmið hefði ekki náðst við gerð kjarasamninga, að koma þeim sem fá lægstu launin upp fyrir fátæktarmörk. Hann benti á, að rauntekjuaukning þeirra, sem fá 18.000 króna hækkun, sé niðurstaðan sú, að launþeginn haldi eftir 10 þúsund krónum þegar skattar og önnur gjöld hafa verið dregin frá. Sérstakur persónuafsláttur fyrir láglaunafólk hefði skilað þeim hópi mun meiri rauntekjuaukningu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði að sumir þingmenn hefðu valið sér það hlutskipti, að plokka alltaf út súru berin og vísaði til Steingríms J. Sigfússonar í því samhengi. Ingibjörg Sólrún sagði, að kjarasamningarnir fælu í sér meiri jöfnuð en sést hefði áður í slíkum samningnum og mörkuðu því tímamót. Ríkisstjórnin væri með yfirlýsingu sinni, að gera mest fyrir þá sem lægt hafa launin og jafnframt, að bæta stöðu barnafjölskyldna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert