Magnús Pétursson hættir sem forstjóri Landspítala

Magnús Pétursson.
Magnús Pétursson. mbl.is/Sverrir

Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala, lætur af störfum þann 1. apríl nk. en hann hefur gegnt forstjórastarfinu frá því í ársbyrjun 1999. Munu Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, og Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, sameiginlega gegna starfi forstjóra spítalans þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn.

Þá hefur verið gengið frá því að Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, taki við starfi sem felur í sér að hafa yfirumsjón með tilteknum þáttum vegna byggingar nýs háskólasjúkrahúss. Jóhannes hefur undanfarið sinnt sambærilegu starfi á vegum Landspítala og fær leyfi frá starfi framkvæmdastjóra lækninga.

Heilbrigðisráðuneytið gerir ráð fyrir að nýr forstjóri verði ráðinn 1. september  en ráðuneytið mun auglýsa starfið. Magnús mun verða nýjum forstjóra spítalans innan handar eftir að hann hefur verið ráðinn.

Anna Stefánsdóttir hefur um árabil gegnt starfi framkvæmdastjóra hjúkrunar og Björn Zoëga hefur leyst Jóhannes M. Gunnarsson af sem framkvæmdastjóri lækninga undanfarna mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert